SÁLMARNIR
Fjórða bók

90. Sálmur 91. Sálmur 92. Sálmur 93. Sálmur 94. Sálmur 95. Sálmur 96 .Sálmur 97 .Sálmur 98. Sálmur
99. Sálmur 100.Sálmur 101.Sálmur 102.Sálmur 103.Sálmur 104.Sálmur 105.Sálmur 106.Sálmur 107.Sálmur

 
 

Fjórða bók


90   Bæn guðsmannsins Móse.

Drottinn, þú hefir verið oss athvarf
frá kyni til kyns.
2 Áður en fjöllin fæddust
og jörðin og heimurinn urðu til,
frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.

3 Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins
og segir: "Hverfið aftur, þér mannanna börn!"
4 Því að þúsund ár eru í þínum augum
sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn,
já, eins og næturvaka.

5 Þú hrífur þá burt, sem í svefni,
þá er að morgni voru sem gróandi gras.
6 Að morgni blómgast það og grær,
að kveldi fölnar það og visnar.

7 Vér hverfum fyrir reiði þinni,
skelfumst fyrir bræði þinni.
8 Þú hefir sett misgjörðir vorar fyrir augu þér,
vorar huldu syndir fyrir ljós auglitis þíns.

9 Allir dagar vorir hverfa fyrir reiði þinni,
ár vor líða sem andvarp.
10 Ævidagar vorir eru sjötíu ár
og þegar best lætur áttatíu ár,
og dýrsta hnossið er mæða og hégómi,
því að þeir líða í skyndi og vér fljúgum burt.

11 Hver þekkir styrkleik reiði þinnar
og bræði þína, svo sem hana ber að óttast?

12 Kenn oss að telja daga vora,
að vér megum öðlast viturt hjarta.

13 Snú þú aftur, Drottinn. Hversu lengi er þess að bíða,
að þú aumkist yfir þjóna þína?
14 Metta oss að morgni með miskunn þinni,
að vér megum fagna og gleðjast alla daga vora.

15 Veit oss gleði í stað daga þeirra, er þú hefir lægt oss,
ára þeirra, er vér höfum illt reynt.
16 Lát dáðir þínar birtast þjónum þínum
og dýrð þína börnum þeirra.

17 Hylli Drottins, Guðs vors, sé yfir oss,
styrk þú verk handa vorra.


91  

Sæll er sá, er situr í skjóli Hins hæsta,
sá er gistir í skugga Hins almáttka,
2 sá er segir við Drottin: "Hæli mitt og háborg,
Guð minn, er ég trúi á!"

3 Hann frelsar þig úr snöru fuglarans,
frá drepsótt glötunarinnar,
4 hann skýlir þér með fjöðrum sínum,
undir vængjum hans mátt þú hælis leita,
trúfesti hans er skjöldur og verja.
5 Eigi þarft þú að óttast ógnir næturinnar,
eða örina, sem flýgur um daga,
6 drepsóttina, er reikar um í dimmunni,
eða sýkina, er geisar um hádegið.
7 Þótt þúsund falli þér við hlið
og tíu þúsund þér til hægri handar,
þá nær það ekki til þín.
8 Þú horfir aðeins á með augunum,
sér hversu óguðlegum er endurgoldið.

9 Þitt hæli er Drottinn,
þú hefir gjört Hinn hæsta að athvarfi þínu.
10 Engin ógæfa hendir þig,
og engin plága nálgast tjald þitt.
11 Því að þín vegna býður hann út englum sínum
til þess að gæta þín á öllum vegum þínum.
12 Þeir munu bera þig á höndum sér,
til þess að þú steytir ekki fót þinn við steini.
13 Þú skalt stíga ofan á höggorma og nöðrur,
troða fótum ljón og dreka.

14 "Af því að hann leggur ást á mig, mun ég frelsa hann,
ég bjarga honum, af því að hann þekkir nafn mitt.
15 Ákalli hann mig, mun ég bænheyra hann,
ég er hjá honum í neyðinni,
ég frelsa hann og gjöri hann vegsamlegan.
16 Ég metta hann með fjöld lífdaga
og læt hann sjá hjálpræði mitt."


92   Sálmur. Hvíldardagsljóð.

2 Gott er að lofa Drottin
og lofsyngja nafni þínu, þú Hinn hæsti,
3 að kunngjöra miskunn þína að morgni
og trúfesti þína um nætur
4 á tístrengjað hljóðfæri og hörpu
með strengjaleik gígjunnar.

5 Þú hefir glatt mig, Drottinn, með dáð þinni,
yfir handaverkum þínum fagna ég.
6 Hversu mikil eru verk þín, Drottinn,
harla djúpar hugsanir þínar.
7 Fíflið eitt skilur eigi,
og fáráðlingurinn einn skynjar eigi þetta.
8 Þegar óguðlegir greru sem gras
og allir illgjörðamennirnir blómguðust,
þá var það til þess að þeir skyldu afmáðir verða að eilífu,
9 en þú sem ert á hæðum, ert til að eilífu, Drottinn.
10 Því sjá, óvinir þínir, Drottinn,
því sjá, óvinir þínir farast,
allir illgjörðamennirnir tvístrast.
11 En mig lætur þú bera hornið hátt eins og vísundinn,
mig hressir þú með ferskri olíu.
12 Auga mitt lítur með gleði á fjandmenn mína,
eyra mitt heyrir með gleði um níðingana, er rísa gegn mér.
13 Hinir réttlátu gróa sem pálminn,
vaxa sem sedrustréð á Líbanon.
14 Þeir eru gróðursettir í húsi Drottins,
gróa í forgörðum Guðs vors.
15 Jafnvel í hárri elli bera þeir ávöxt,
þeir eru safamiklir og grænir.
16 Þeir kunngjöra, að Drottinn er réttlátur,
klettur minn, sem ekkert ranglæti er hjá.


93

Drottinn er konungur orðinn!
Hann hefir íklæðst hátign,
Drottinn hefir skrýðst,
hann hefir spennt sig belti styrkleika síns
og fest jörðina, svo að hún haggast eigi.
2 Hásæti þitt stendur stöðugt frá öndverðu,
frá eilífð ert þú.
3 Straumarnir hófu upp, Drottinn,
straumarnir hófu upp raust sína,
straumarnir hófu upp dunur sínar.
4 Drottinn á hæðum er tignarlegri
en gnýr mikilla, tignarlegra vatna,
tignarlegri en boðar hafsins.

5 Vitnisburðir þínir eru harla áreiðanlegir,
húsi þínu hæfir heilagleiki,
ó Drottinn, um allar aldir.


94

Drottinn, Guð hefndarinnar,
Guð hefndarinnar, birst þú í geisladýrð!
2 Rís þú upp, dómari jarðar,
endurgjald ofstopamönnunum það er þeir hafa aðhafst!
3 Hversu lengi, Drottinn, eiga illir menn,
hversu lengi, Drottinn, eiga illir menn að fagna?
4 Þeir ausa úr sér drambyrðum,
allir illvirkjarnir rembast.
5 Þeir kremja lýð þinn, Drottinn,
þjá arfleifð þína,
6 drepa ekkjur og aðkomandi
og myrða föðurlausa
7 og segja: "Drottinn sér það ekki,
Jakobs Guð tekur eigi eftir því."

8 Takið eftir, þér hinir fíflsku meðal lýðsins,
og þér fáráðlingar, hvenær ætlið þér að verða hyggnir?
9 Mun sá eigi heyra, sem eyrað hefir plantað,
mun sá eigi sjá, sem augað hefir til búið?
10 Skyldi sá er agar þjóðirnar eigi hegna,
hann sem kennir mönnunum þekkingu?
11 Drottinn þekkir hugsanir mannsins,
að þær eru einber hégómi.

12 Sæll er sá maður, er þú agar, Drottinn,
og fræðir í lögmáli þínu,
13 til þess að hlífa honum við mótlætisdögunum,
uns gröf er grafin fyrir óguðlega.
14 Því að Drottinn hrindir eigi burt lýð sínum
og yfirgefur eigi arfleifð sína,
15 heldur mun rétturinn hverfa aftur til hins réttláta,
og honum munu allir hjartahreinir fylgja.

16 Hver rís upp mér til hjálpar gegn illvirkjunum,
hver gengur fram fyrir mig gegn illgjörðamönnunum?
17 Ef Drottinn veitti mér eigi fulltingi,
þá mundi sál mín brátt hvíla í dauðaþögn.
18 Þegar ég hugsaði: "Mér skriðnar fótur,"
þá studdi mig miskunn þín, Drottinn.
19 Þegar miklar áhyggjur lögðust á hjarta mitt,
hressti huggun þín sálu mína.

20 Mun dómstóll spillingarinnar vera í bandalagi við þig,
hann sem býr öðrum tjón undir yfirskini réttarins?
21 Þeir ráðast á líf hins réttláta
og sakfella saklaust blóð.
22 En Drottinn er mér háborg
og Guð minn klettur mér til hælis.
23 Hann geldur þeim misgjörð þeirra
og afmáir þá í illsku þeirra,
Drottinn, Guð vor, afmáir þá.


95

Komið, fögnum fyrir Drottni,
látum gleðióp gjalla fyrir kletti hjálpræðis vors.
2 Komum með lofsöng fyrir auglit hans,
syngjum gleðiljóð fyrir honum.
3 Því að Drottinn er mikill Guð
og mikill konungur yfir öllum guðum.
4 Í hans hendi eru jarðardjúpin,
og fjallatindarnir heyra honum til.
5 Hans er hafið, hann hefir skapað það,
og hendur hans mynduðu þurrlendið.
6 Komið, föllum fram og krjúpum niður,
beygjum kné vor fyrir Drottni, skapara vorum,
7 því að hann er vor Guð,
og vér erum gæslulýður hans
og hjörð sú, er hann leiðir.

Ó að þér í dag vilduð heyra raust hans!
8 Herðið eigi hjörtu yðar eins og hjá Meríba,
eins og daginn við Massa í eyðimörkinni,
9 þegar feður yðar freistuðu mín,
reyndu mig, þótt þeir sæju verk mín.
10 Í fjörutíu ár hafði ég viðbjóð á þessari kynslóð,
og ég sagði: "Þeir eru andlega villtur lýður
og þekkja ekki vegu mína."
11 Þess vegna sór ég í reiði minni:
"Þeir skulu eigi ganga inn til hvíldar minnar."


96

Syngið Drottni nýjan söng,
syngið Drottni öll lönd!
2 Syngið Drottni, lofið nafn hans,
kunngjörið hjálpráð hans dag eftir dag.
3 Segið frá dýrð hans meðal þjóðanna,
frá dásemdarverkum hans meðal allra lýða.
4 Því að mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur,
óttalegur er hann öllum guðum framar.
5 Því að allir guðir þjóðanna eru falsguðir,
en Drottinn hefir gjört himininn.
6 Heiður og vegsemd eru fyrir augliti hans,
máttur og prýði í helgidómi hans.

7 Tjáið Drottni lof, þér kynkvíslir þjóða,
tjáið Drottni vegsemd og vald.
8 Tjáið Drottni dýrð þá, er nafni hans hæfir,
færið gjafir og komið til forgarða hans,
9 fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða,
titrið fyrir honum, öll lönd!
10 Segið meðal þjóðanna: Drottinn er konungur orðinn!
Hann hefir fest jörðina, svo að hún bifast ekki,
hann dæmir þjóðirnar með réttvísi.

11 Himinninn gleðjist og jörðin fagni,
hafið drynji og allt sem í því er,
12 foldin fagni og allt sem á henni er,
öll tré skógarins kveði fagnaðaróp,
13 fyrir Drottni, því að hann kemur,
hann kemur til þess að dæma jörðina.
Hann mun dæma heiminn með réttlæti
og þjóðirnar eftir trúfesti sinni.


97

Drottinn er konungur orðinn! jörðin fagni,
eyjafjöldinn gleðjist.
2 Ský og sorti eru umhverfis hann,
réttlæti og réttvísi eru grundvöllur hásætis hans,
3 eldur fer fyrir honum
og bálast umhverfis spor hans.
4 Leiftur hans lýsa um jarðríki,
jörðin sér það og nötrar.
5 Björgin bráðna sem vax fyrir Drottni,
fyrir Drottni gjörvallrar jarðarinnar.
6 Himnarnir kunngjöra réttlæti hans,
og allar þjóðir sjá dýrð hans.
7 Allir skurðgoðadýrkendur verða til skammar,
þeir er stæra sig af falsguðunum.
Allir guðir falla fram fyrir honum.

8 Síon heyrir það og gleðst,
Júdadætur fagna
sakir dóma þinna, Drottinn.
9 Því að þú, Drottinn, ert Hinn hæsti yfir gjörvallri jörðunni,
þú ert hátt hafinn yfir alla guði.

10 Drottinn elskar þá er hata hið illa,
hann verndar sálir dýrkenda sinna,
frelsar þá af hendi óguðlegra.
11 Ljós rennur upp réttlátum
og gleði hjartahreinum.
12 Gleðjist, þér réttlátir, yfir Drottni,
vegsamið hans heilaga nafn.


98   Sálmur.

Syngið Drottni nýjan söng,
því að hann hefir gjört dásemdarverk,
hægri hönd hans hjálpaði honum
og hans heilagi armleggur.
2 Drottinn hefir kunngjört hjálpræði sitt,
fyrir augum þjóðanna opinberaði hann réttlæti sitt.
3 Hann minntist miskunnar sinnar við Jakob
og trúfesti sinnar við Ísraels ætt.
Öll endimörk jarðar sáu
hjálpræði Guðs vors.

4 Látið gleðióp gjalla fyrir Drottni, öll lönd,
hefjið gleðisöng, æpið fagnaðaróp og lofsyngið.
5 Leikið fyrir Drottni á gígju,
á gígju með lofsöngshljómi,
6 með lúðrum og básúnuhljómi,
látið gleðióp gjalla fyrir konunginum Drottni.
7 Hafið drynji og allt sem í því er,
heimurinn og þeir sem í honum lifa.
8 Fljótin skulu klappa lof í lófa,
fjöllin fagna öll saman
9 fyrir Drottni sem kemur
til að dæma jörðina.
Hann dæmir heiminn með réttlæti
og þjóðirnar með réttvísi.


99

Drottinn er konungur orðinn!
Þjóðirnar skjálfi.
Hann situr uppi yfir kerúbunum, jörðin nötri.
2 Drottinn er mikill á Síon
og hátt upp hafinn yfir alla lýði.
3 Þeir skulu lofa nafn þitt, hið mikla og óttalega.
Heilagur er hann!

4 Þú ert voldugur konungur, sem elskar réttinn,
þú hefir staðfest réttvísina,
rétt og réttlæti hefir þú framið í Jakob.
5 Tignið Drottin, Guð vorn,
og fallið fram fyrir fótskör hans.
Heilagur er hann!

6 Móse og Aron eru meðal presta hans,
Samúel meðal þeirra er ákalla nafn hans,
þeir ákalla Drottin og hann bænheyrir þá.
7 Hann talar til þeirra í skýstólpanum,
því að þeir gæta vitnisburða hans
og laganna, er hann gaf þeim.
8 Drottinn, Guð vor, þú bænheyrir þá,
þú reynist þeim fyrirgefandi Guð
og sýknar þá af gjörðum þeirra.

9 Tignið Drottin Guð vorn,
og fallið fram fyrir hans heilaga fjalli,
því að heilagur er Drottinn, Guð vor.


100   Þakkarfórnar-sálmur.

Öll veröldin fagni fyrir Drottni!
2 Þjónið Drottni með gleði,
komið fyrir auglit hans með fagnaðarsöng!
3 Vitið, að Drottinn er Guð,
hann hefir skapað oss, og hans erum vér,
lýður hans og gæsluhjörð.
4 Gangið inn um hlið hans með lofsöng,
í forgarða hans með sálmum,
lofið hann, vegsamið nafn hans.
5 Því að Drottinn er góður, miskunn hans varir að eilífu
og trúfesti hans frá kyni til kyns.


101   Davíðssálmur.

Ég vil syngja um miskunn og rétt,
lofsyngja þér, Drottinn.
2 Ég vil gefa gætur að vegi hins ráðvanda -
hvenær kemur þú til mín?
Í grandvarleik hjartans vil ég ganga um
í húsi mínu.
3 Ég læt mér eigi til hugar koma
neitt níðingsverk.
Ég hata þá sem illa breyta,
þeir fá engin mök við mig að eiga.
4 Rangsnúið hjarta skal frá mér víkja,
ég kannast eigi við hinn vonda.
5 Rægi einhver náunga sinn í leyni,
þagga ég niður í honum.
Hver sem er hrokafullur og drembilátur í hjarta,
hann fæ ég ekki þolað.
6 Augu mín horfa á hina trúföstu í landinu,
að þeir megi búa hjá mér.
Sá sem gengur grandvarleikans vegu,
hann skal þjóna mér.
7 Enginn má dvelja í húsi mínu,
er svik fremur.
Sá er lygar mælir stenst eigi
fyrir augum mínum.
8 Á hverjum morgni þagga ég niður í öllum óguðlegum í landinu.
Ég útrými úr borg Drottins
öllum illgjörðamönnum.


102   Bæn hrjáðs manns, þá er hann örmagnast og úthellir kveini sínu fyrir Drottni.

2 Drottinn, heyr þú bæn mína
og hróp mitt berist til þín.
3 Byrg eigi auglit þitt fyrir mér,
þegar ég er í nauðum staddur,
hneig að mér eyra þitt, þegar ég kalla,
flýt þér að bænheyra mig.

4 Því að dagar mínir hverfa sem reykur,
bein mín brenna sem eldur.
5 Hjarta mitt er mornað og þornað sem gras,
því að ég gleymi að neyta brauðs míns.
6 Sakir kveinstafa minna
er ég sem skinin bein.
7 Ég líkist pelíkan í eyðimörkinni,
er sem ugla í rústum.
8 Ég ligg andvaka og styn
eins og einmana fugl á þaki.
9 Daginn langan smána óvinir mínir mig,
fjandmenn mínir formæla með nafni mínu.
10 Ég et ösku sem brauð
og blanda drykk minn tárum
11 sakir reiði þinnar og bræði,
af því að þú hefir tekið mig upp og varpað mér burt.
12 Dagar mínir eru sem hallur skuggi,
og ég visna sem gras.

13 En þú, Drottinn, ríkir að eilífu,
og nafn þitt varir frá kyni til kyns.
14 Þú munt rísa upp til þess að miskunna Síon,
því að tími er kominn til þess að líkna henni,
já, stundin er komin.
15 Þjónar þínir elska steina hennar
og harma yfir öskuhrúgum hennar.

16 Þá munu þjóðirnar óttast nafn Drottins
og allir konungar jarðarinnar dýrð þína,
17 því að Drottinn byggir upp Síon
og birtist í dýrð sinni.
18 Hann snýr sér að bæn hinna nöktu
og fyrirlítur eigi bæn þeirra.

19 Þetta skal skráð fyrir komandi kynslóð,
og þjóð, sem enn er ósköpuð, skal lofa Drottin.
20 Því að Drottinn lítur niður af sínum helgu hæðum,
horfir frá himni til jarðar
21 til þess að heyra andvarpanir bandingjanna
og leysa börn dauðans,
22 að þau mættu kunngjöra nafn Drottins í Síon
og lofstír hans í Jerúsalem,
23 þegar þjóðirnar safnast saman
og konungsríkin til þess að þjóna Drottni.

24 Hann hefir bugað kraft minn á ferð minni,
stytt daga mína.
25 Ég segi: Guð minn, tak mig eigi burt á miðri ævinni.
Ár þín vara frá kyni til kyns.
26 Í öndverðu grundvallaðir þú jörðina,
og himnarnir eru verk handa þinna.
27 Þeir líða undir lok, en þú varir.
Þeir fyrnast sem fat,
þú skiptir þeim sem klæðum, og þeir hverfa.
28 En þú ert hinn sami,
og þín ár fá engan enda.
29 Synir þjóna þinna munu búa kyrrir
og niðjar þeirra standa stöðugir fyrir augliti þínu.


103   Davíðssálmur.

Lofa þú Drottin, sála mín,
og allt sem í mér er, hans heilaga nafn,
2 lofa þú Drottin, sála mín,
og gleym eigi neinum velgjörðum hans.
3 Hann fyrirgefur allar misgjörðir þínar,
læknar öll þín mein,
4 leysir líf þitt frá gröfinni,
krýnir þig náð og miskunn.
5 Hann mettar þig gæðum,
þú yngist upp sem örninn.

6 Drottinn fremur réttlæti
og veitir rétt öllum kúguðum.
7 Hann gjörði Móse vegu sína kunna
og Ísraelsbörnum stórvirki sín.
8 Náðugur og miskunnsamur er Drottinn,
þolinmóður og mjög gæskuríkur.
9 Hann þreytir eigi deilur um aldur
og er eigi eilíflega reiður.
10 Hann hefir eigi breytt við oss eftir syndum vorum
og eigi goldið oss eftir misgjörðum vorum,
11 heldur svo hár sem himinninn er yfir jörðunni,
svo voldug er miskunn hans við þá er óttast hann.
 
12 Svo langt sem austrið er frá vestrinu,
svo langt hefir hann fjarlægt afbrot vor frá oss.

13 Eins og faðir sýnir miskunn börnum sínum,
eins hefir Drottinn sýnt miskunn þeim er óttast hann.
14 Því að hann þekkir eðli vort,
minnist þess að vér erum mold.

15 Dagar mannsins eru sem grasið,
hann blómgast sem blómið á mörkinni,
16 þegar vindur blæs á hann er hann horfinn,
og staður hans þekkir hann ekki framar.
17 En miskunn Drottins við þá er óttast hann varir frá eilífð til eilífðar,
og réttlæti hans nær til barnabarnanna,
18 þeirra er varðveita sáttmála hans
og muna að breyta eftir boðum hans.

19 Drottinn hefir reist hásæti sitt á himnum,
og konungdómur hans drottnar yfir alheimi.
20 Lofið Drottin, þér englar hans,
þér voldugu hetjur, er framkvæmið boð hans,
er þér heyrið hljóminn af orði hans.
21 Lofið Drottin, allar hersveitir hans,
þjónar hans, er framkvæmið vilja hans.
22 Lofið Drottin, öll verk hans,
á hverjum stað í ríki hans.
Lofa þú Drottin, sála mín.


104  

Lofa þú Drottin, sála mín!
Drottinn, Guð minn, þú ert harla mikill.

Þú ert klæddur hátign og vegsemd.
2 Þú hylur þig ljósi eins og skikkju,
þenur himininn út eins og tjalddúk.
3 Þú hvelfir hásal þinn í vötnunum,
gjörir ský að vagni þínum,
og ferð um á vængjum vindarins.
4 Þú gjörir vindana að sendiboðum þínum,
bálandi eld að þjónum þínum.

5 Þú grundvallar jörðina á undirstöðum hennar,
svo að hún haggast eigi um aldur og ævi.
6 Hafflóðið huldi hana sem klæði,
vötnin náðu upp yfir fjöllin,
7 en fyrir þinni ógnun flýðu þau,
fyrir þrumurödd þinni hörfuðu þau undan með skelfingu.
8 Þau gengu yfir fjöllin, steyptust niður í dalina,
þangað sem þú hafðir búið þeim stað.
9 Þú settir takmörk, sem þau mega ekki fara yfir,
þau skulu ekki hylja jörðina framar.

10 Þú sendir lindir í dalina,
þær renna milli fjallanna,
11 þær svala öllum dýrum merkurinnar,
villiasnarnir slökkva þorsta sinn.
12 Yfir þeim byggja fuglar himins,
láta kvak sitt heyrast milli greinanna.
13 Þú vökvar fjöllin frá hásal þínum,
jörðin mettast af ávexti verka þinna.
14 Þú lætur gras spretta handa fénaðinum
og jurtir, sem maðurinn ræktar,
til þess að framleiða brauð af jörðinni
15 og vín, sem gleður hjarta mannsins,
olíu, sem gjörir andlitið gljáandi,
og brauð, sem hressir hjarta mannsins.
16 Tré Drottins mettast,
sedrustrén á Líbanon, er hann hefir gróðursett
17 þar sem fuglarnir byggja hreiður,
storkarnir, er hafa kýprestrén að húsi.
18 Hin háu fjöll eru handa steingeitunum,
klettarnir eru hæli fyrir stökkhérana.

19 Þú gjörðir tunglið til þess að ákvarða tíðirnar,
sólin veit, hvar hún á að ganga til viðar.
20 Þegar þú gjörir myrkur, verður nótt,
og þá fara öll skógardýrin á kreik.
21 Ljónin öskra eftir bráð
og heimta æti sitt af Guði.
22 Þegar sól rennur upp, draga þau sig í hlé
og leggjast fyrir í fylgsnum sínum,
23 en þá fer maðurinn út til starfa sinna,
til vinnu sinnar fram á kveld.

24 Hversu mörg eru verk þín, Drottinn,
þú gjörðir þau öll með speki,
jörðin er full af því, er þú hefir skapað.
25 Þar er hafið, mikið og vítt á alla vegu,
þar er óteljandi grúi,
smá dýr og stór.
26 Þar fara skipin um
og Levjatan, er þú hefir skapað til þess að leika sér þar.

27 Öll vona þau á þig,
að þú gefir þeim fæðu þeirra á réttum tíma.
28 Þú gefur þeim, og þau tína,
þú lýkur upp hendi þinni, og þau mettast gæðum.
29 Þú byrgir auglit þitt, þá skelfast þau,
þú tekur aftur anda þeirra, þá andast þau
og hverfa aftur til moldarinnar.
30 Þú sendir út anda þinn, þá verða þau til,
og þú endurnýjar ásjónu jarðar.

31 Dýrð Drottins vari að eilífu,
Drottinn gleðjist yfir verkum sínum,
32 hann sem lítur til jarðar, svo að hún nötrar,
sem snertir við fjöllunum, svo að úr þeim rýkur.

33 Ég vil ljóða um Drottin meðan lifi,
lofsyngja Guði mínum meðan ég er til.
34 Ó að mál mitt mætti falla honum í geð!
Ég gleðst yfir Drottni.
35 Ó að syndarar mættu hverfa af jörðunni
og óguðlegir eigi vera til framar.
Vegsama þú Drottin, sála mín.
Halelúja.


105

Þakkið Drottni, ákallið nafn hans,
gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna!
2 Syngið fyrir honum, leikið fyrir honum,
talið um öll hans dásemdarverk.
3 Hrósið yður af hans helga nafni,
hjarta þeirra er leita Drottins gleðjist.
4 Leitið Drottins og máttar hans,
stundið sífellt eftir augliti hans.
5 Minnist dásemdarverka hans, þeirra er hann gjörði,
tákna hans og refsidóma munns hans,
6 þér niðjar Abrahams, þjónar hans,
þér synir Jakobs, hans útvöldu.

7 Hann er Drottinn, vor Guð,
um víða veröld ganga dómar hans.
8 Hann minnist að eilífu sáttmála síns,
orðs þess, er hann hefir gefið þúsundum kynslóða,
9 sáttmálans, er hann gjörði við Abraham,
og eiðs síns við Ísak,
10 þess er hann setti sem lög fyrir Jakob,
eilífan sáttmála fyrir Ísrael,
11 þá er hann mælti: Þér mun ég gefa Kanaanland
sem erfðahlut yðar.

12 Þegar þeir voru fámennur hópur,
örfáir og bjuggu þar útlendingar,
13 þá fóru þeir frá einni þjóð til annarrar
og frá einu konungsríki til annars lýðs.
14 Hann leið engum að kúga þá
og hegndi konungum þeirra vegna.
15 "Snertið eigi við mínum smurðu
og gjörið eigi spámönnum mínum mein."

16 Þá er hann kallaði hallæri yfir landið,
braut í sundur hverja stoð brauðsins,
17 þá sendi hann mann á undan þeim,
Jósef var seldur sem þræll.
18 Þeir þjáðu fætur hans með fjötrum,
hann var lagður í járn,
19 allt þar til er orð hans rættust,
og orð Drottins létu hann standast raunina.
20 Konungur sendi boð og lét hann lausan,
drottnari þjóðanna leysti fjötra hans.
21 Hann gjörði hann að herra yfir húsi sínu
og að drottnara yfir öllum eigum sínum,
22 að hann gæti fjötrað höfðingja eftir vild
og kennt öldungum hans speki.
23 Síðan kom Ísrael til Egyptalands,
Jakob var gestur í landi Kams.

24 Og Guð gjörði lýð sinn mjög mannmargan
og lét þá verða fleiri en fjendur þeirra.
25 Hann sneri hjörtum Egypta til haturs við lýð sinn,
til lævísi við þjóna sína.
26 Hann sendi Móse, þjón sinn,
og Aron, er hann hafði útvalið,
27 hann gjörði tákn sín á þeim
og undur í landi Kams.
28 Hann sendi sorta og myrkvaði landið,
en þeir gáfu orðum hans engan gaum,
29 hann breytti vötnum þeirra í blóð
og lét fiska þeirra deyja,
30 land þeirra varð kvikt af froskum,
alla leið inn í svefnherbergi konungs,
31 hann bauð, þá komu flugur,
mývargur um öll héruð þeirra,
32 hann gaf þeim hagl fyrir regn,
bálandi eld í land þeirra,
33 hann laust vínvið þeirra og fíkjutré
og braut sundur trén í héruðum þeirra,
34 hann bauð, þá kom jarðvargur
og óteljandi engisprettur,
35 sem átu upp allar jurtir í landi þeirra
og átu upp ávöxtinn af jörð þeirra,
36 hann laust alla frumburði í landi þeirra,
frumgróða alls styrkleiks þeirra.
37 Síðan leiddi hann þá út með silfri og gulli,
enginn hrasaði af kynkvíslum hans.

38 Egyptaland gladdist yfir burtför þeirra,
því að ótti við þá var fallinn yfir þá.
39 Hann breiddi út ský sem hlíf
og eld til þess að lýsa um nætur.

40 Þeir báðu, þá lét hann lynghæns koma
og mettaði þá með himnabrauði.
41 Hann opnaði klett, svo að vatn vall upp,
rann sem fljót um eyðimörkina.

42 Hann minntist síns heilaga heits
við Abraham þjón sinn
43 og leiddi lýð sinn út með gleði,
sína útvöldu með fögnuði.
44 Og hann gaf þeim lönd þjóðanna,
það sem þjóðirnar höfðu aflað með striti, fengu þeir til eignar,
45 til þess að þeir skyldu halda lög hans
og varðveita lögmál hans.
Halelúja.


106

Halelúja!
Þakkið Drottni, því að hann er góður,
því að miskunn hans varir að eilífu.

2 Hver getur sagt frá máttarverkum Drottins,
kunngjört allan lofstír hans?
3 Sælir eru þeir, sem gæta réttarins,
sem iðka réttlæti alla tíma.
4 Minnst þú mín, Drottinn, með velþóknun þeirri, er þú hefir á lýð þínum,
vitja mín með hjálpræði þínu,
5 að ég megi horfa með unun á hamingju þinna útvöldu,
gleðjast yfir gleði þjóðar þinnar,
fagna með eignarlýð þínum.

6 Vér höfum syndgað ásamt feðrum vorum,
höfum breytt illa og óguðlega.

7 Feður vorir í Egyptalandi gáfu eigi gætur að dásemdarverkum þínum,
minntust eigi þinnar miklu miskunnar
og sýndu Hinum hæsta þrjósku hjá Hafinu rauða.
8 Þó hjálpaði hann þeim sakir nafns síns
til þess að kunngjöra mátt sinn.
9 Hann hastaði á Hafið rauða, svo að það þornaði upp,
og lét þá ganga um djúpin eins og um eyðimörk.
10 Hann frelsaði þá af hendi hatursmanna þeirra
og leysti þá af hendi óvinanna.
11 Vötnin huldu fjendur þeirra,
ekki einn af þeim komst undan.

12 Þá trúðu þeir orðum hans,
sungu honum lof.
13 En þeir gleymdu fljótt verkum hans,
treystu eigi á ráð hans.
14 Þeir fylltust lysting í eyðimörkinni
og freistuðu Guðs í öræfunum.
15 Þá veitti hann þeim bæn þeirra
og sendi þeim megurð.
16 Þá öfunduðust þeir við Móse í herbúðunum,
við Aron, hinn heilaga Drottins.
17 Jörðin opnaðist og svalg Datan
og huldi flokk Abírams,
18 eldur kviknaði í flokki þeirra,
loginn brenndi hina óguðlegu.

19 Þeir bjuggu til kálf hjá Hóreb
og lutu steyptu líkneski,
20 og létu vegsemd sína í skiptum
fyrir mynd af uxa, er gras etur.
21 Þeir gleymdu Guði, frelsara sínum,
þeim er stórvirki gjörði í Egyptalandi,
22 dásemdarverk í landi Kams,
óttaleg verk við Hafið rauða.
23 Þá hugði hann á að tortíma þeim,
ef Móse, hans útvaldi,
hefði eigi gengið fram fyrir hann og borið af blakið,
til þess að afstýra reiði hans, svo að hann skyldi eigi tortíma.

24 Þeir fyrirlitu hið unaðslega land
og trúðu eigi orðum hans.
25 Þeir mögluðu í tjöldum sínum
og hlýddu eigi á raust Drottins.
26 Þá lyfti hann hendi sinni gegn þeim og sór
að láta þá falla í eyðimörkinni,
27 tvístra niðjum þeirra meðal þjóðanna
og dreifa þeim um löndin.

28 Þeir dýrkuðu Baal Peór
og átu fórnir dauðra skurðgoða.
29 Þeir egndu hann til reiði með athæfi sínu,
og braust því út plága meðal þeirra.
30 En Pínehas gekk fram og skar úr,
og þá staðnaði plágan.
31 Og honum var reiknað það til réttlætis,
frá kyni til kyns, að eilífu.

32 Þeir reittu hann til reiði hjá Meríba-vötnum,
þá fór illa fyrir Móse þeirra vegna,
33 því að þeir sýndu þrjósku anda hans,
og honum hrutu ógætnisorð af vörum.

34 Þeir eyddu eigi þjóðunum,
er Drottinn hafði boðið þeim,
35 heldur lögðu þeir lag sitt við heiðingjana
og lærðu athæfi þeirra.
36 Þeir dýrkuðu skurðgoð þeirra,
og þau urðu þeim að snöru,
37 þeir færðu að fórnum sonu sína
og dætur sínar illum vættum
38 og úthelltu saklausu blóði,
blóði sona sinna og dætra,
er þeir fórnfærðu skurðgoðum Kanaans,
svo að landið vanhelgaðist af blóðskuldinni.
39 Þeir saurguðust af verkum sínum
og frömdu tryggðrof með athæfi sínu.

40 Þá upptendraðist reiði Drottins gegn lýð hans,
og hann fékk viðbjóð á arfleifð sinni.
41 Hann gaf þá á vald heiðingjum,
og hatursmenn þeirra drottnuðu yfir þeim.
42 Óvinir þeirra þjökuðu þá,
og þeir urðu að beygja sig undir vald þeirra.
43 Mörgum sinnum bjargaði hann þeim,
en þeir sýndu þrjósku í ráði sínu
og urðu að lúta sakir misgjörðar sinnar.

44 Samt leit hann á neyð þeirra,
er hann heyrði kvein þeirra.
45 Hann minntist sáttmála síns við þá
og aumkaðist yfir þá sakir sinnar miklu miskunnar
46 og lét þá finna miskunn
hjá öllum þeim er höfðu haft þá burt hernumda.

47 Hjálpa þú oss, Drottinn, Guð vor,
og safna oss saman frá þjóðunum,
að vér megum lofa þitt heilaga nafn,
víðfrægja lofstír þinn.

48 Lofaður sé Drottinn, Ísraels Guð,
frá eilífð til eilífðar.
Og allur lýðurinn segi: Amen!
Halelúja.