SÁLMARNIR
Fimmta bók
108 Ljóð. Davíðssálmur.
- 2 Hjarta mitt er stöðugt, ó Guð,
- ég vil syngja og leika,
- vakna þú, sála mín!
- 3 Vakna þú, harpa og gígja,
- ég vil vekja morgunroðann.
- 4 Ég vil lofa þig meðal lýðanna, Drottinn,
- vegsama þig meðal þjóðanna,
- 5 því að miskunn þín er himnum hærri,
- og trúfesti þín nær til skýjanna.
- 6 Sýn þig himnum hærri, ó Guð,
- og dýrð þín breiðist yfir gjörvalla jörðina,
- 7 til þess að ástvinir þínir megi frelsast.
- Hjálpa þú með hægri hendi þinni og bænheyr mig.
- 8 Guð hefir sagt í helgidómi sínum: "Ég vil fagna,
- ég vil skipta Síkem, mæla út Súkkót-dal.
- 9 Ég á Gíleað, ég á Manasse,
- og Efraím er hlíf höfði mínu,
- Júda veldissproti minn.
- 10 Móab er mundlaug mín,
- í Edóm fleygi ég skónum mínum,
- yfir Filisteu fagna ég."
- 11 Hver vill fara með mig í örugga borg,
- hver vill flytja mig til Edóm?
- 12 Þú hefir útskúfað oss, ó Guð,
- og þú, Guð, fer eigi út með hersveitum vorum.
- 13 Veit oss lið gegn fjandmönnunum,
- því að mannahjálp er ónýt.
- 14 Með Guðs hjálp munum vér hreystiverk vinna,
- og hann mun troða óvini vora fótum.
109 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
- Þú Guð lofsöngs míns, ver eigi hljóður,
- 2 því að óguðlegan og svikulan munn opna þeir í gegn mér,
- tala við mig með ljúgandi tungu.
- 3 Með hatursorðum umkringja þeir mig
- og áreita mig að ástæðulausu.
- 4 Þeir launa mér elsku mína með ofsókn,
- en ég gjöri ekki annað en biðja.
- 5 Þeir launa mér gott með illu
- og elsku mína með hatri.
- 6 Set óguðlegan yfir mótstöðumann minn,
- og ákærandinn standi honum til hægri handar.
- 7 Hann gangi sekur frá dómi
- og bæn hans verði til syndar.
- 8 Dagar hans verði fáir,
- og annar hljóti embætti hans.
- 9 Börn hans verði föðurlaus
- og kona hans ekkja.
- 10 Börn hans fari á flæking og vergang,
- þau verði rekin burt úr rústum sínum.
- 11 Okrarinn leggi snöru fyrir allar eigur hans,
- og útlendir fjandmenn ræni afla hans.
- 12 Enginn sýni honum líkn,
- og enginn aumkist yfir föðurlausu börnin hans.
- 13 Niðjar hans verði afmáðir,
- nafn hans útskafið í fyrsta ættlið.
- 14 Misgjörðar feðra hans verði minnst af Drottni
- og synd móður hans eigi afmáð,
- 15 séu þær ætíð fyrir sjónum Drottins
- og hann afmái minningu þeirra af jörðunni
- 16 sakir þess, að hann mundi eigi eftir að sýna elsku,
- heldur ofsótti hinn hrjáða og snauða
- og hinn ráðþrota til þess að drepa hann.
- 17 Hann elskaði bölvunina, hún bitni þá á honum,
- hann smáði blessunina, hún sé þá fjarri honum.
- 18 Hann íklæddist bölvuninni sem kufli,
- hún læsti sig þá inn í innyfli hans sem vatn
- og í bein hans sem olía,
- 19 hún verði honum sem klæði, er hann sveipar um sig,
- og sem belti, er hann sífellt gyrðist.
- 20 Þetta séu laun andstæðinga minna frá Drottni
- og þeirra, er tala illt í gegn mér.
- 21 En þú, Drottinn Guð, breyt við mig eftir gæsku miskunnar þinnar,
- frelsa mig sakir nafns þíns,
- 22 því að ég er hrjáður og snauður,
- hjartað berst ákaft í brjósti mér.
- 23 Ég hverf sem hallur skuggi,
- ég er hristur út eins og jarðvargar.
- 24 Kné mín skjögra af föstu,
- og hold mitt tærist af viðsmjörsskorti.
- 25 Ég er orðinn þeim að spotti,
- þegar þeir sjá mig, hrista þeir höfuðið.
- 26 Veit mér lið, Drottinn, Guð minn,
- hjálpa mér eftir miskunn þinni,
- 27 að þeir megi komast að raun um, að það var þín hönd,
- að það varst þú, Drottinn, sem gjörðir það.
- 28 Bölvi þeir, þú munt blessa,
- verði þeir til skammar, er rísa gegn mér,
- en þjónn þinn gleðjist.
- 29 Andstæðingar mínir íklæðist svívirðing,
- sveipi um sig skömminni eins og skikkju.
- 30 Ég vil lofa Drottin mikillega með munni mínum,
- meðal fjölmennis vil ég vegsama hann,
- 31 því að hann stendur hinum snauða til hægri handar
- til þess að hjálpa honum gegn þeim er sakfella hann.
110 Davíðssálmur.
- Svo segir Drottinn við herra minn:
- "Sest þú mér til hægri handar,
- þá mun ég leggja óvini þína
- sem fótskör að fótum þér."
- 2 Drottinn réttir út þinn volduga sprota frá Síon,
- drottna þú mitt á meðal óvina þinna!
- 3 Þjóð þín kemur sjálfboða á valdadegi þínum.
- Í helgu skrauti frá skauti morgunroðans
- kemur dögg æskuliðs þíns til þín.
- 4 Drottinn hefir svarið, og hann iðrar þess eigi:
- "Þú ert prestur að eilífu, að hætti Melkísedeks."
- 5 Drottinn er þér til hægri handar,
- hann knosar konunga á degi reiði sinnar.
- 6 Hann heldur dóm meðal þjóðanna, fyllir allt líkum,
- hann knosar höfuð um víðan vang.
- 7 Á leiðinni drekkur hann úr læknum,
- þess vegna ber hann höfuðið hátt.
- Halelúja.
- Ég vil lofa Drottin af öllu hjarta,
- í félagi og söfnuði réttvísra.
- 2 Mikil eru verk Drottins,
- verð íhugunar öllum þeim, er hafa unun af þeim.
- 3 Tign og vegsemd eru verk hans
- og réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu.
- 4 Hann hefir látið dásemdarverka sinna minnst verða,
- náðugur og miskunnsamur er Drottinn.
- 5 Hann hefir gefið fæðu þeim, er óttast hann,
- hann minnist að eilífu sáttmála síns.
- 6 Hann hefir kunngjört þjóð sinni kraft verka sinna,
- með því að gefa þeim eignir heiðingjanna.
- 7 Verk handa hans eru trúfesti og réttvísi,
- öll fyrirmæli hans eru áreiðanleg,
- 8 örugg um aldur og ævi,
- framkvæmd í trúfesti og réttvísi.
- 9 Hann hefir sent lausn lýð sínum,
- skipað sáttmála sinn að eilífu,
- heilagt og óttalegt er nafn hans.
- 10 Upphaf speki er ótti Drottins,
- hann er fögur hyggindi öllum þeim, er iðka hann.
- Lofstír hans stendur um eilífð.
- Halelúja.
- Sæll er sá maður, sem óttast Drottin
- og hefir mikla unun af boðum hans.
- 2 Niðjar hans verða voldugir á jörðunni,
- ætt réttvísra mun blessun hljóta.
- 3 Nægtir og auðæfi eru í húsi hans,
- og réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu.
- 4 Hann upprennur réttvísum sem ljós í myrkrinu,
- mildur og meðaumkunarsamur og réttlátur.
- 5 Vel farnast þeim manni, sem er mildur og fús að lána,
- sem framkvæmir málefni sín með réttvísi,
- 6 því að hann mun eigi haggast að eilífu,
- hins réttláta mun minnst um eilífð.
- 7 Hann óttast eigi ill tíðindi,
- hjarta hans er stöðugt og treystir Drottni.
- 8 Hjarta hans er öruggt, hann óttast eigi,
- og loks fær hann að horfa á fjendur sína auðmýkta.
- 9 Hann hefir miðlað mildilega, gefið fátækum,
- réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu,
- horn hans gnæfir hátt í vegsemd.
- 10 Hinn óguðlegi sér það, og honum gremst,
- nístir tönnum og tortímist.
- Ósk óguðlegra verður að engu.
- Halelúja.
- Þjónar Drottins, lofið,
- lofið nafn Drottins.
- 2 Nafn Drottins sé blessað
- héðan í frá og að eilífu.
- 3 Frá sólarupprás til sólarlags
- sé nafn Drottins vegsamað.
- 4 Drottinn er hafinn yfir allar þjóðir
- og dýrð hans yfir himnana.
- 5 Hver er sem Drottinn, Guð vor?
- Hann situr hátt
- 6 og horfir djúpt
- á himni og á jörðu.
- 7 Hann reisir lítilmagnann úr duftinu,
- lyftir snauðum upp úr saurnum
- 8 og leiðir hann til sætis hjá tignarmönnum,
- hjá tignarmönnum þjóðar hans.
- 9 Hann lætur óbyrjuna í húsinu búa í næði
- sem glaða barnamóður.
- Halelúja.
- Þegar Ísrael fór út af Egyptalandi,
- Jakobs ætt frá þjóðinni, er mælti á erlenda tungu,
- 2 varð Júda helgidómur hans,
- Ísrael ríki hans.
- 3 Hafið sá það og flýði,
- Jórdan hörfaði undan.
- 4 Fjöllin hoppuðu sem hrútar,
- hæðirnar sem lömb.
- 5 Hvað er þér, haf, er þú flýr,
- Jórdan, er þú hörfar undan,
- 6 þér fjöll, er þér hoppið sem hrútar,
- þér hæðir sem lömb?
- 7 Titra þú, jörð, fyrir augliti Drottins,
- fyrir augliti Jakobs Guðs,
- 8 hans sem gjörir klettinn að vatnstjörn,
- tinnusteininn að vatnslind.
- Gef eigi oss, Drottinn, eigi oss,
- heldur þínu nafni dýrðina
- sakir miskunnar þinnar og trúfesti.
- 2 Hví eiga heiðingjarnir að segja:
- "Hvar er Guð þeirra?"
- 3 En vor Guð er í himninum,
- allt sem honum þóknast, það gjörir hann.
- 4 Skurðgoð þeirra eru silfur og gull,
- handaverk manna.
- 5 Þau hafa munn, en tala ekki,
- augu, en sjá ekki,
- 6 þau hafa eyru, en heyra ekki,
- nef, en finna engan þef.
- 7 Þau hafa hendur, en þreifa ekki,
- fætur, en ganga ekki,
- þau tala eigi með barka sínum.
- 8 Eins og þau eru, verða smiðir þeirra,
- allir þeir er á þau treysta.
- 9 En Ísrael treystir Drottni,
- hann er hjálp þeirra og skjöldur.
- 10 Arons ætt treystir Drottni,
- hann er hjálp þeirra og skjöldur.
- 11 Þeir sem óttast Drottin treysta Drottni,
- hann er hjálp þeirra og skjöldur.
- 12 Drottinn minnist vor, hann mun blessa,
- hann mun blessa Ísraels ætt,
- hann mun blessa Arons ætt,
- 13 hann mun blessa þá er óttast Drottin,
- yngri sem eldri.
- 14 Drottinn mun fjölga yður,
- sjálfum yður og börnum yðar.
- 15 Þér eruð blessaðir af Drottni,
- skapara himins og jarðar.
- 16 Himinninn er himinn Drottins,
- en jörðina hefir hann gefið mannanna börnum.
- 17 Eigi lofa andaðir menn Drottin,
- né heldur neinn sá, sem hniginn er í dauðaþögn,
- 18 en vér viljum lofa Drottin,
- héðan í frá og að eilífu.
- Halelúja.
- Ég elska Drottin,
- af því að hann heyrir grátbeiðni mína.
- 2 Hann hefir hneigt eyra sitt að mér,
- og alla ævi vil ég ákalla hann.
- 3 Snörur dauðans umkringdu mig,
- angist Heljar mætti mér,
- ég mætti nauðum og harmi.
- 4 Þá ákallaði ég nafn Drottins:
- "Ó, Drottinn, bjarga sál minni!"
- 5 Náðugur er Drottinn og réttlátur,
- og vor Guð er miskunnsamur.
- 6 Drottinn varðveitir varnarlausa,
- þegar ég var máttvana hjálpaði hann mér.
- 7 Verð þú aftur róleg, sála mín,
- því að Drottinn gjörir vel til þín.
- 8 Já, þú hreifst sál mína frá dauða,
- auga mitt frá gráti,
- fót minn frá hrösun.
- 9 Ég geng frammi fyrir Drottni
- á landi lifenda.
- 10 Ég trúði, þó ég segði:
- "Ég er mjög beygður."
- 11 Ég sagði í angist minni:
- "Allir menn ljúga."
- 12 Hvað á ég að gjalda Drottni
- fyrir allar velgjörðir hans við mig?
- 13 Ég lyfti upp bikar hjálpræðisins
- og ákalla nafn Drottins.
- 14 Ég greiði Drottni heit mín,
- og það í augsýn alls lýðs hans.
- 15 Dýr er í augum Drottins
- dauði dýrkenda hans.
- 16 Æ, Drottinn, víst er ég þjónn þinn,
- ég er þjónn þinn, sonur ambáttar þinnar,
- þú leystir fjötra mína.
- 17 Þér færi ég þakkarfórn
- og ákalla nafn Drottins.
- 18 Ég greiði Drottni heit mín,
- og það í augsýn alls lýðs hans,
- 19 í forgörðum húss Drottins,
- í þér, Jerúsalem.
- Halelúja.
- Lofið Drottin, allar þjóðir,
- vegsamið hann, allir lýðir,
- 2 því að miskunn hans er voldug yfir oss,
- og trúfesti Drottins varir að eilífu.
- Halelúja.
- Þakkið Drottni, því að hann er góður,
- því að miskunn hans varir að eilífu.
- 2 Það mæli Ísrael:
- "Því að miskunn hans varir að eilífu!"
- 3 Það mæli Arons ætt:
- "Því að miskunn hans varir að eilífu!"
- 4 Það mæli þeir sem óttast Drottin:
- "Því að miskunn hans varir að eilífu!"
- 5 Í þrengingunni ákallaði ég Drottin,
- hann bænheyrði mig og rýmkaði um mig.
- 6 Drottinn er með mér, ég óttast eigi,
- hvað geta menn gjört mér?
- 7 Drottinn er með mér með hjálp sína,
- og ég mun fá að horfa á ófarir hatursmanna minna.
- 8 Betra er að leita hælis hjá Drottni
- en að treysta mönnum,
- 9 betra er að leita hælis hjá Drottni
- en að treysta tignarmönnum.
- 10 Allar þjóðir umkringdu mig,
- en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.
- 11 Þær umkringdu mig á alla vegu,
- en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.
- 12 Þær umkringdu mig eins og býflugur vax,
- brunnu sem eldur í þyrnum,
- en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.
- 13 Mér var hrundið, til þess að ég skyldi falla,
- en Drottinn veitti mér lið.
- 14 Drottinn er styrkur minn og lofsöngur,
- og hann varð mér til hjálpræðis.
- 15 Fagnaðar- og siguróp
- kveður við í tjöldum réttlátra:
- Hægri hönd Drottins vinnur stórvirki,
- 16 hægri hönd Drottins upphefur,
- hægri hönd Drottins vinnur stórvirki.
- 17 Ég mun eigi deyja, heldur lifa
- og kunngjöra verk Drottins.
- 18 Drottinn hefir hirt mig harðlega,
- en eigi ofurselt mig dauðanum.
- 19 Ljúkið upp fyrir mér hliðum réttlætisins,
- að ég megi fara inn um þau og lofa Drottin.
- 20 Þetta er hlið Drottins,
- réttlátir menn fara inn um það.
- 21 Ég lofa þig, af því að þú bænheyrðir mig
- og ert orðinn mér hjálpræði.
- 22 Steinninn sem smiðirnir höfnuðu
- er orðinn að hyrningarsteini.
- 23 Að tilhlutun Drottins er þetta orðið,
- það er dásamlegt í augum vorum.
- 24 Þetta er dagurinn sem Drottinn hefir gjört,
- fögnum, verum glaðir á honum.
- 25 Drottinn, hjálpa þú,
- Drottinn, gef þú gengi!
- 26 Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins,
- frá húsi Drottins blessum vér yður.
- 27 Drottinn er Guð, hann lætur oss skína ljós.
- Tengið saman dansraðirnar með laufgreinum,
- allt inn að altarishornunum.
- 28 Þú ert Guð minn, og ég þakka þér,
- Guð minn, ég vegsama þig.
- 29 Þakkið Drottni, því að hann er góður,
- því að miskunn hans varir að eilífu.
Sálmur
119
- Sælir eru þeir sem breyta grandvarlega,
- þeir er fram ganga í lögmáli Drottins.
- 2 Sælir eru þeir er halda reglur hans,
- þeir er leita hans af öllu hjarta
- 3 og eigi fremja ranglæti,
- en ganga á vegum hans.
- 4 Þú hefir gefið skipanir þínar,
- til þess að menn skuli halda þær vandlega.
- 5 Ó að breytni mín mætti vera staðföst,
- svo að ég varðveiti lög þín.
- 6 Þá mun ég eigi til skammar verða,
- er ég gef gaum að öllum boðum þínum.
- 7 Ég skal þakka þér af einlægu hjarta,
- er ég hefi numið þín réttlátu ákvæði.
- 8 Ég vil gæta laga þinna,
- þá munt þú alls ekki yfirgefa mig.
- 9 Með hverju getur ungur maður haldið vegi sínum hreinum?
- Með því að gefa gaum að orði þínu.
- 10 Ég leita þín af öllu hjarta,
- lát mig eigi villast frá boðum þínum.
- 11 Ég geymi orð þín í hjarta mínu,
- til þess að ég skuli eigi syndga gegn þér.
- 12 Lofaður sért þú, Drottinn,
- kenn mér lög þín.
- 13 Með vörum mínum tel ég upp
- öll ákvæði munns þíns.
- 14 Yfir vegi vitnisburða þinna gleðst ég
- eins og yfir alls konar auði.
- 15 Fyrirmæli þín vil ég íhuga
- og skoða vegu þína.
- 16 Ég leita unaðar í lögum þínum,
- gleymi eigi orði þínu.
- 17 Veit þjóni þínum að lifa,
- að ég megi halda orð þín.
- 18 Ljúk upp augum mínum, að ég megi skoða
- dásemdirnar í lögmáli þínu.
- 19 Ég er útlendingur á jörðunni,
- dyl eigi boð þín fyrir mér.
- 20 Sál mín er kvalin af þrá
- eftir ákvæðum þínum alla tíma.
- 21 Þú hefir ógnað ofstopamönnunum,
- bölvaðir eru þeir, sem víkja frá boðum þínum.
- 22 Velt þú af mér háðung og skömm,
- því að ég hefi haldið reglur þínar.
- 23 Þótt þjóðhöfðingjar sitji og taki saman ráð sín gegn mér,
- þá íhugar þjónn þinn lög þín.
- 24 Og reglur þínar eru unun mín,
- boð þín eru ráðgjafar mínir.
- 25 Sál mín loðir við duftið,
- lát mig lífi halda eftir orði þínu.
- 26 Ég hefi talið upp málefni mín, og þú bænheyrðir mig,
- kenn mér lög þín.
- 27 Lát mig skilja veg fyrirmæla þinna,
- að ég megi íhuga dásemdir þínar.
- 28 Sál mín tárast af trega,
- reis mig upp eftir orði þínu.
- 29 Lát veg lyginnar vera fjarri mér
- og veit mér náðarsamlega lögmál þitt.
- 30 Ég hefi útvalið veg sannleikans,
- sett mér ákvæði þín fyrir sjónir.
- 31 Ég held fast við reglur þínar,
- Drottinn, lát mig eigi verða til skammar.
- 32 Ég vil skunda veg boða þinna,
- því að þú hefir gjört mér létt um hjartað.
- 33 Kenn mér, Drottinn, veg laga þinna,
- að ég megi halda þau allt til enda.
- 34 Veit mér skyn, að ég megi halda lögmál þitt
- og varðveita það af öllu hjarta.
- 35 Leið mig götu boða þinna,
- því að af henni hefi ég yndi.
- 36 Beyg hjarta mitt að reglum þínum,
- en eigi að ranglátum ávinningi.
- 37 Snú augum mínum frá því að horfa á hégóma,
- lífga mig á vegum þínum.
- 38 Staðfest fyrirheit þitt fyrir þjóni þínum,
- sem gefið er þeim er þig óttast.
- 39 Nem burt háðungina, sem ég er hræddur við,
- því að ákvæði þín eru góð.
- 40 Sjá, ég þrái fyrirmæli þín,
- lífga mig með réttlæti þínu.
- 41 Lát náð þína koma yfir mig, Drottinn,
- hjálpræði þitt, samkvæmt fyrirheiti þínu,
- 42 að ég fái andsvör veitt þeim er smána mig,
- því að þínu orði treysti ég.
- 43 Og tak aldrei sannleikans orð burt úr munni mínum,
- því að ég bíð dóma þinna.
- 44 Ég vil stöðugt varðveita lögmál þitt,
- um aldur og ævi,
- 45 þá mun ég ganga um víðlendi,
- því að ég leita fyrirmæla þinna,
- 46 þá mun ég tala um reglur þínar frammi fyrir konungum,
- og eigi skammast mín,
- 47 og leita unaðar í boðum þínum,
- þeim er ég elska,
- 48 og rétta út hendurnar eftir boðum þínum,
- þeim er ég elska,
- og íhuga lög þín.
- 49 Minnst þú þess orðs við þjón þinn,
- sem þú lést mig vona á.
- 50 Þetta er huggun mín í eymd minni,
- að orð þitt lætur mig lífi halda.
- 51 Ofstopamenn spotta mig ákaflega,
- en ég vík eigi frá lögmáli þínu.
- 52 Ég minnist dóma þinna frá öndverðu, Drottinn,
- og læt huggast.
- 53 Heiftarreiði við óguðlega hrífur mig,
- við þá er yfirgefa lögmál þitt.
- 54 Lög þín eru efni ljóða minna
- á þessum stað, þar sem ég er gestur.
- 55 Um nætur minnist ég nafns þíns, Drottinn,
- og geymi laga þinna.
- 56 Þetta er orðin hlutdeild mín,
- að halda fyrirmæli þín.
- 57 Drottinn er hlutskipti mitt,
- ég hefi ákveðið að varðveita orð þín.
- 58 Ég hefi leitað hylli þinnar af öllu hjarta,
- ver mér náðugur samkvæmt fyrirheiti þínu.
- 59 Ég hefi athugað vegu mína
- og snúið fótum mínum að reglum þínum.
- 60 Ég hefi flýtt mér og eigi tafið
- að varðveita boð þín.
- 61 Snörur óguðlegra lykja um mig,
- en lögmáli þínu hefi ég eigi gleymt.
- 62 Um miðnætti rís ég upp til þess að þakka þér þín réttlátu ákvæði.
- 63 Ég er félagi allra þeirra er óttast þig
- og varðveita fyrirmæli þín.
- 64 Jörðin er full af miskunn þinni, Drottinn,
- kenn mér lög þín.
- 65 Þú hefir gjört vel til þjóns þíns
- eftir orði þínu, Drottinn.
- 66 Kenn mér góð hyggindi og þekkingu,
- því að ég trúi á boð þín.
- 67 Áður en ég var beygður, villtist ég,
- en nú varðveiti ég orð þitt.
- 68 Þú ert góður og gjörir vel,
- kenn mér lög þín.
- 69 Ofstopamenn spinna upp lygar gegn mér,
- en ég held fyrirmæli þín af öllu hjarta.
- 70 Hjarta þeirra er tilfinningarlaust sem mör væri,
- en ég leita unaðar í lögmáli þínu.
- 71 Það varð mér til góðs, að ég var beygður,
- til þess að ég mætti læra lög þín.
- 72 Lögmálið af munni þínum er mér mætara
- en þúsundir af gulli og silfri.
- 73 Hendur þínar hafa gjört mig og skapað,
- veit mér skyn, að ég megi læra boð þín.
- 74 Þeir er óttast þig sjá mig og gleðjast,
- því að ég vona á orð þitt.
- 75 Ég veit, Drottinn, að dómar þínir eru réttlátir
- og að þú hefir lægt mig í trúfesti þinni.
- 76 Lát miskunn þína verða mér til huggunar,
- eins og þú hefir heitið þjóni þínum.
- 77 Lát miskunn þína koma yfir mig, að ég megi lifa,
- því að lögmál þitt er unun mín.
- 78 Lát ofstopamennina verða til skammar,
- af því að þeir kúga mig með rangsleitni,
- en ég íhuga fyrirmæli þín.
- 79 Til mín snúi sér þeir er óttast þig
- og þeir er þekkja reglur þínar.
- 80 Hjarta mitt sé grandvart í lögum þínum,
- svo að ég verði eigi til skammar.
- 81 Sál mín tærist af þrá eftir hjálpræði þínu,
- ég bíð eftir orði þínu.
- 82 Augu mín tærast af þrá eftir fyrirheiti þínu:
- Hvenær munt þú hugga mig?
- 83 Því að ég er orðinn eins og belgur í reykhúsi,
- en lögum þínum hefi ég eigi gleymt.
- 84 Hversu margir eru dagar þjóns þíns?
- Hvenær munt þú heyja dóm á ofsækjendum mínum?
- 85 Ofstopamenn hafa grafið mér grafir,
- menn, er eigi hlýða lögmáli þínu.
- 86 Öll boð þín eru trúfesti.
- Menn ofsækja mig með lygum, veit þú mér lið.
- 87 Nærri lá, að þeir gjörðu út af við mig á jörðunni,
- og þó hafði ég eigi yfirgefið fyrirmæli þín.
- 88 Lát mig lífi halda sakir miskunnar þinnar,
- að ég megi varðveita reglurnar af munni þínum.
- 89 Orð þitt, Drottinn, varir að eilífu,
- það stendur stöðugt á himnum.
- 90 Frá kyni til kyns varir trúfesti þín,
- þú hefir grundvallað jörðina, og hún stendur.
- 91 Eftir ákvæðum þínum stendur hún enn í dag,
- því að allt lýtur þér.
- 92 Ef lögmál þitt hefði eigi verið unun mín,
- þá hefði ég farist í eymd minni.
- 93 Ég skal eigi gleyma fyrirmælum þínum að eilífu,
- því að með þeim hefir þú látið mig lífi halda.
- 94 Þinn er ég, hjálpa þú mér,
- því að ég leita fyrirmæla þinna.
- 95 Óguðlegir bíða mín til þess að tortíma mér,
- en ég gef gætur að reglum þínum.
- 96 Á allri fullkomnun hefi ég séð endi,
- en þín boð eiga sér engin takmörk.
- 97 Hve mjög elska ég lögmál þitt,
- allan liðlangan daginn íhuga ég það.
- 98 Boð þín hafa gjört mig vitrari en óvinir mínir eru,
- því að þau heyra mér til um eilífð.
- 99 Ég er hyggnari en allir kennarar mínir,
- því að ég íhuga reglur þínar.
- 100 Ég er skynsamari en öldungar,
- því að ég held fyrirmæli þín.
- 101 Ég held fæti mínum frá hverjum vondum vegi
- til þess að gæta orðs þíns.
- 102 Frá ákvæðum þínum hefi ég eigi vikið,
- því að þú hefir frætt mig.
- 103 Hversu sæt eru fyrirheit þín gómi mínum,
- hunangi betri munni mínum.
- 104 Af fyrirmælum þínum er ég skynsamur orðinn,
- fyrir því hata ég sérhvern lygaveg.
- 105 Þitt orð er lampi fóta minna
- og ljós á vegum mínum.
- 106 Ég hefi svarið og haldið það
- að varðveita þín réttlátu ákvæði.
- 107 Ég er mjög beygður, Drottinn,
- lát mig lífi halda eftir orði þínu.
- 108 Haf þóknun á sjálfviljafórnum munns míns, Drottinn,
- og kenn mér ákvæði þín.
- 109 Líf mitt er ætíð í hættu,
- en þínu lögmáli hefi ég eigi gleymt.
- 110 Óguðlegir hafa lagt snöru fyrir mig,
- en ég hefi eigi villst frá fyrirmælum þínum.
- 111 Reglur þínar eru eign mín um aldur,
- því að þær eru yndi hjarta míns.
- 112 Ég hneigi hjarta mitt að því að breyta eftir lögum þínum,
- um aldur og allt til enda.
- 113 Ég hata þá, er haltra til beggja hliða,
- en lögmál þitt elska ég.
- 114 Þú ert skjól mitt og skjöldur,
- ég vona á orð þitt.
- 115 Burt frá mér, þér illgjörðamenn,
- að ég megi halda boð Guðs míns.
- 116 Styð mig samkvæmt fyrirheiti þínu, að ég megi lifa,
- og lát mig eigi til skammar verða í von minni.
- 117 Styð þú mig, að ég megi frelsast
- og ætíð líta til laga þinna.
- 118 Þú hafnar öllum þeim, er villast frá lögum þínum,
- því að svik þeirra eru til einskis.
- 119 Sem sora metur þú alla óguðlega á jörðu,
- þess vegna elska ég reglur þínar.
- 120 Hold mitt nötrar af hræðslu fyrir þér,
- og dóma þína óttast ég.
- 121 Ég hefi iðkað rétt og réttlæti,
- sel mig eigi í hendur kúgurum mínum.
- 122 Gakk í ábyrgð fyrir þjón þinn, honum til heilla,
- lát eigi ofstopamennina kúga mig.
- 123 Augu mín tærast af þrá eftir hjálpræði þínu
- og eftir þínu réttláta fyrirheiti.
- 124 Far með þjón þinn eftir miskunn þinni
- og kenn mér lög þín.
- 125 Ég er þjónn þinn, veit mér skyn,
- að ég megi þekkja reglur þínar.
- 126 Tími er kominn fyrir Drottin að taka í taumana,
- þeir hafa rofið lögmál þitt.
- 127 Þess vegna elska ég boð þín
- framar en gull og skíragull.
- 128 Þess vegna held ég beina leið eftir öllum fyrirmælum þínum,
- ég hata sérhvern lygaveg.
- 129 Reglur þínar eru dásamlegar,
- þess vegna heldur sál mín þær.
- 130 Útskýring orðs þíns upplýsir,
- gjörir fávísa vitra.
- 131 Ég opna munninn af ílöngun,
- því ég þrái boð þín.
- 132 Snú þér til mín og ver mér náðugur,
- eins og ákveðið er þeim er elska nafn þitt.
- 133 Gjör skref mín örugg með fyrirheiti þínu
- og lát ekkert ranglæti drottna yfir mér.
- 134 Leys mig undan kúgun manna,
- að ég megi varðveita fyrirmæli þín.
- 135 Lát ásjónu þína lýsa yfir þjón þinn
- og kenn mér lög þín.
- 136 Augu mín fljóta í tárum,
- af því að menn varðveita eigi lögmál þitt.
- 137 Réttlátur ert þú, Drottinn,
- og réttvísir dómar þínir.
- 138 Þú hefir skipað fyrir reglur þínar með réttlæti
- og mikilli trúfesti.
- 139 Ákefð mín eyðir mér,
- því að fjendur mínir hafa gleymt orðum þínum.
- 140 Orð þitt er mjög hreint,
- og þjónn þinn elskar það.
- 141 Ég er lítilmótlegur og fyrirlitinn,
- en fyrirmælum þínum hefi ég eigi gleymt.
- 142 Réttlæti þitt er eilíft réttlæti
- og lögmál þitt trúfesti.
- 143 Neyð og hörmung hafa mér að höndum borið,
- en boð þín eru unun mín.
- 144 Reglur þínar eru réttlæti um eilífð,
- veit mér skyn, að ég megi lifa.
- 145 Ég kalla af öllu hjarta, bænheyr mig, Drottinn,
- ég vil halda lög þín.
- 146 Ég ákalla þig, hjálpa þú mér,
- að ég megi varðveita reglur þínar.
- 147 Ég er á ferli fyrir dögun og hrópa
- og bíð orða þinna.
- 148 Fyrr en vakan hefst eru augu mín vökul
- til þess að íhuga orð þitt.
- 149 Hlýð á raust mína eftir miskunn þinni,
- lát mig lífi halda, Drottinn, eftir ákvæðum þínum.
- 150 Þeir eru nærri, er ofsækja mig af fláræði,
- þeir eru langt burtu frá lögmáli þínu.
- 151 Þú ert nálægur, Drottinn,
- og öll boð þín eru trúfesti.
- 152 Fyrir löngu hefi ég vitað um reglur þínar,
- að þú hefir grundvallað þær um eilífð.
- 153 Sjá þú eymd mína og frelsa mig,
- því að ég hefi eigi gleymt lögmáli þínu.
- 154 Flyt þú mál mitt og leys mig,
- lát mig lífi halda samkvæmt fyrirheiti þínu.
- 155 Hjálpræðið er fjarri óguðlegum,
- því að þeir leita eigi fyrirmæla þinna.
- 156 Mikil er miskunn þín, Drottinn,
- lát mig lífi halda eftir ákvæðum þínum.
- 157 Margir eru ofsækjendur mínir og fjendur,
- en frá reglum þínum hefi ég eigi vikið.
- 158 Ég sé trúrofana og kenni viðbjóðs,
- þeir varðveita eigi orð þitt.
- 159 Sjá, hversu ég elska fyrirmæli þín,
- lát mig lífi halda, Drottinn, eftir miskunn þinni.
- 160 Allt orð þitt samanlagt er trúfesti,
- og hvert réttlætisákvæði þitt varir að eilífu.
- 161 Höfðingjar ofsækja mig að ástæðulausu,
- en hjarta mitt óttast orð þín.
- 162 Ég gleðst yfir fyrirheiti þínu
- eins og sá er fær mikið herfang.
- 163 Ég hata lygi og hefi andstyggð á henni,
- en þitt lögmál elska ég.
- 164 Sjö sinnum á dag lofa ég þig
- sakir þinna réttlátu ákvæða.
- 165 Gnótt friðar hafa þeir er elska lögmál þitt,
- og þeim er við engri hrösun hætt.
- 166 Ég vænti hjálpræðis þíns, Drottinn,
- og framkvæmi boð þín.
- 167 Sál mín varðveitir reglur þínar,
- og þær elska ég mjög.
- 168 Ég varðveiti fyrirmæli þín og reglur,
- allir mínir vegir eru þér augljósir.
- 169 Ó að hróp mitt mætti nálgast auglit þitt, Drottinn,
- veit mér að skynja í samræmi við orð þitt.
- 170 Ó að grátbeiðni mín mætti koma fyrir auglit þitt,
- frelsa mig samkvæmt fyrirheiti þínu.
- 171 Lof um þig skal streyma mér af vörum,
- því að þú kennir mér lög þín.
- 172 Tunga mín skal mæra orð þitt,
- því að öll boðorð þín eru réttlæti.
- 173 Hönd þín veiti mér lið,
- því að þín fyrirmæli hefi ég útvalið.
- 174 Ég þrái hjálpræði þitt, Drottinn,
- og lögmál þitt er unun mín.
- 175 Lát sál mína lifa, að hún megi lofa þig
- og dómar þínir veiti mér lið.
- 176 Ég villist sem týndur sauður,
- leita þú þjóns þíns,
- því að þínum boðum hefi ég eigi gleymt.
120 Helgigönguljóð.
- Ég ákalla Drottin í nauðum mínum,
- og hann bænheyrir mig.
- 2 Drottinn, frelsa sál mína frá ljúgandi vörum,
- frá tælandi tungu.
- 3 Hversu mun fara fyrir þér nú og síðar,
- þú tælandi tunga?
- 4 Örvar harðstjórans eru hvesstar
- með glóandi viðarkolum.
- 5 Vei mér, að ég dvel hjá Mesek,
- bý hjá tjöldum Kedars.
- 6 Nógu lengi hefir sál mín búið
- hjá þeim er friðinn hata.
- 7 Þótt ég tali friðlega,
- vilja þeir ófrið.
121 Helgigönguljóð
- Ég hef augu mín til fjallanna:
- Hvaðan kemur mér hjálp?
- 2 Hjálp mín kemur frá Drottni,
- skapara himins og jarðar.
- 3 Hann mun eigi láta fót þinn skriðna,
- vörður þinn blundar ekki.
- 4 Nei, hann blundar ekki og sefur ekki,
- hann, vörður Ísraels.
- 5 Drottinn er vörður þinn,
- Drottinn skýlir þér,
- hann er þér til hægri handar.
- 6 Um daga mun sólarhitinn eigi vinna þér mein,
- né heldur tunglið um nætur.
- 7 Drottinn mun vernda þig fyrir öllu illu,
- hann mun vernda sál þína.
- 8 Drottinn mun varðveita útgöngu þína og inngöngu
- héðan í frá og að eilífu.
122 Helgigönguljóð. Eftir Davíð.
- Ég varð glaður, er menn sögðu við mig:
- "Göngum í hús Drottins."
- 2 Fætur vorir standa
- í hliðum þínum, Jerúsalem.
- 3 Jerúsalem, þú hin endurreista,
- borgin þar sem öll þjóðin safnast saman,
- 4 þangað sem kynkvíslirnar fara,
- kynkvíslir Drottins -
- það er regla fyrir Ísrael -
- til þess að lofa nafn Drottins,
- 5 því að þar standa dómarastólar,
- stólar fyrir Davíðs ætt.
- 6 Biðjið Jerúsalem friðar,
- hljóti heill þeir, er elska þig.
- 7 Friður sé kringum múra þína,
- heill í höllum þínum.
- 8 Sakir bræðra minna og vina
- óska ég þér friðar.
- 9 Sakir húss Drottins, Guðs vors,
- vil ég leita þér hamingju.
123 Helgigönguljóð.
- Til þín hef ég augu mín,
- þú sem situr á himnum.
- 2 Eins og augu þjónanna mæna á hönd húsbónda síns,
- eins og augu ambáttarinnar mæna á hönd húsmóður sinnar,
- svo mæna augu vor á Drottin, Guð vorn,
- uns hann líknar oss.
- 3 Líkna oss, Drottinn, líkna oss,
- því að vér höfum fengið meira en nóg af spotti.
- 4 Sál vor hefir fengið meira en nóg af háði hrokafullra,
- af spotti dramblátra.
124 Helgigönguljóð. Eftir Davíð.
- Hefði það ekki verið Drottinn sem var með oss,
- - skal Ísrael segja -
- 2 hefði það ekki verið Drottinn sem var með oss,
- þegar menn risu í móti oss,
- 3 þá hefðu þeir gleypt oss lifandi,
- þegar reiði þeirra bálaðist upp í móti oss.
- 4 Þá hefðu vötnin streymt yfir oss,
- elfur gengið yfir oss,
- 5 þá hefðu gengið yfir oss
- hin beljandi vötn.
- 6 Lofaður sé Drottinn,
- er ekki gaf oss tönnum þeirra að bráð.
- 7 Sál vor slapp burt eins og fugl úr snöru fuglarans.
- Brast snaran, burt sluppum vér.
- 8 Hjálp vor er í nafni Drottins,
- skapara himins og jarðar.
125 Helgigönguljóð.
- Þeir sem treysta Drottni
- eru sem Síonfjall, er eigi bifast,
- sem stendur að eilífu.
- 2 Fjöll eru kringum Jerúsalem,
- og Drottinn er kringum lýð sinn
- héðan í frá og að eilífu.
- 3 Því að veldissproti guðleysisins
- mun eigi hvíla á landi réttlátra,
- til þess að hinir réttlátu
- skuli eigi rétta fram hendur sínar til ranglætis.
- 4 Gjör þú góðum vel til, Drottinn,
- og þeim sem hjartahreinir eru.
- 5 En þá er beygja á krókóttar leiðir
- mun Drottinn láta hverfa með illgjörðamönnum.
- Friður sé yfir Ísrael!
126 Helgigönguljóð.
- Þegar Drottinn sneri við hag Síonar,
- þá var sem oss dreymdi.
- 2 Þá fylltist munnur vor hlátri,
- og tungur vorar fögnuði.
- Þá sögðu menn meðal þjóðanna:
- "Mikla hluti hefir Drottinn gjört við þá."
- 3 Drottinn hefir gjört mikla hluti við oss,
- vér vorum glaðir.
- 4 Snú við hag vorum, Drottinn,
- eins og þú gjörir við lækina í Suðurlandinu.
- 5 Þeir sem sá með tárum,
- munu uppskera með gleðisöng.
- 6 Grátandi fara menn
- og bera sæðið til sáningar,
- með gleðisöng koma þeir aftur
- og bera kornbindin heim.
127 Helgigönguljóð. Eftir Salómon.
- Ef Drottinn byggir ekki húsið,
- erfiða smiðirnir til ónýtis.
- Ef Drottinn verndar eigi borgina,
- vakir vörðurinn til ónýtis.
- 2 Það er til ónýtis fyrir yður,
- þér sem snemma rísið og gangið seint til hvíldar
- og etið brauð, sem aflað er með striti:
- Svo gefur hann ástvinum sínum í svefni!
- 3 Sjá, synir eru gjöf frá Drottni,
- ávöxtur móðurkviðarins er umbun.
- 4 Eins og örvar í hendi kappans,
- svo eru synir getnir í æsku.
- 5 Sæll er sá maður, er fyllt hefir örvamæli sinn með þeim,
- þeir verða eigi til skammar,
- er þeir tala við óvini sína í borgarhliðinu.
128 Helgigönguljóð.
- Sæll er hver sá, er óttast Drottin,
- er gengur á hans vegum.
- 2 Já, afla handa þinna skalt þú njóta,
- sæll ert þú, vel farnast þér.
- 3 Kona þín er sem frjósamur vínviður
- innst í húsi þínu,
- synir þínir sem teinungar olíutrésins
- umhverfis borð þitt.
- 4 Sjá, sannarlega hlýtur slíka blessun sá maður,
- er óttast Drottin.
- 5 Drottinn blessi þig frá Síon,
- þú munt horfa með unun á hamingju Jerúsalem alla ævidaga þína,
- 6 og sjá sonu sona þinna.
- Friður sé yfir Ísrael!
129 Helgigönguljóð.
- Þeir hafa fjandskapast mjög við mig frá æsku,
- - skal Ísrael segja -
- 2 þeir hafa fjandskapast mjög við mig frá æsku,
- en þó eigi borið af mér.
- 3 Plógmennirnir hafa plægt um hrygg mér,
- gjört plógför sín löng,
- 4 en Drottinn hinn réttláti hefir skorið í sundur
- reipi óguðlegra.
- 5 Sneypast skulu þeir og undan hörfa,
- allir þeir sem hata Síon.
- 6 Þeir skulu verða sem gras á þekju,
- er visnar áður en það frævist.
- 7 Sláttumaðurinn skal eigi fylla hönd sína
- né sá fang sitt sem bindur,
- 8 og þeir sem fram hjá fara skulu ekki segja:
- "Blessun Drottins sé með yður."
- Vér blessum yður í nafni Drottins!
130 Helgigönguljóð.
- Úr djúpinu ákalla ég þig, Drottinn,
- 2 Drottinn, heyr þú raust mína,
- lát eyru þín hlusta á
- grátbeiðni mína!
- 3 Ef þú, Drottinn, gæfir gætur að misgjörðum,
- Drottinn, hver fengi þá staðist?
- 4 En hjá þér er fyrirgefning,
- svo að menn óttist þig.
- 5 Ég vona á Drottin, sál mín vonar,
- og hans orðs bíð ég.
- 6 Meir en vökumenn morgun,
- vökumenn morgun,
- þreyr sál mín Drottin.
- 7 Ó Ísrael, bíð þú Drottins,
- því að hjá Drottni er miskunn,
- og hjá honum er gnægð lausnar.
- 8 Hann mun leysa Ísrael
- frá öllum misgjörðum hans.
131 Helgigönguljóð. Eftir Davíð.
- Drottinn, hjarta mitt er eigi dramblátt
- né augu mín hrokafull.
- Ég fæst eigi við mikil málefni,
- né þau sem mér eru ofvaxin.
- 2 Sjá, ég hefi sefað sál mína
- og þaggað niður í henni.
- Eins og afvanið barn hjá móður sinni,
- svo er sál mín í mér.
- 3 Vona, Ísrael, á Drottin,
- héðan í frá og að eilífu.
132 Helgigönguljóð.
- Drottinn, mun þú Davíð
- allar þrautir hans,
- 2 hann sem sór Drottni,
- gjörði heit hinum volduga Jakobs Guði:
- 3 "Ég vil eigi ganga inn í tjaldhús mitt,
- eigi stíga í hvílurúm mitt,
- 4 eigi unna augum mínum svefns
- né augnalokum mínum blunds,
- 5 fyrr en ég hefi fundið stað fyrir Drottin,
- bústað fyrir hinn volduga Jakobs Guð."
- 6 Sjá, vér höfum heyrt um hann í Efrata,
- fundið hann á Jaarmörk.
- 7 Látum oss ganga til bústaðar Guðs,
- falla fram á fótskör hans.
- 8 Tak þig upp, Drottinn, og far á hvíldarstað þinn,
- þú og örk máttar þíns.
- 9 Prestar þínir íklæðist réttlæti
- og dýrkendur þínir fagni.
- 10 Sakir Davíðs þjóns þíns
- vísa þú þínum smurða eigi frá.
- 11 Drottinn hefir svarið Davíð
- óbrigðulan eið, er hann eigi mun rjúfa:
- "Af ávexti kviðar þíns
- mun ég setja mann í hásæti þitt.
- 12 Ef synir þínir varðveita sáttmála minn
- og reglur mínar, þær er ég kenni þeim,
- þá skulu og þeirra synir um aldur
- sitja í hásæti þínu."
- 13 Því að Drottinn hefir útvalið Síon,
- þráð hana sér til bústaðar:
- 14 "Þetta er hvíldarstaður minn um aldur,
- hér vil ég búa, því að hann hefi ég þráð.
- 15 Vistir hans vil ég vissulega blessa,
- og fátæklinga hans vil ég seðja með brauði,
- 16 presta hans vil ég íklæða hjálpræði,
- hinir guðhræddu er þar búa skulu kveða fagnaðarópi.
- 17 Þar vil ég láta Davíð horn vaxa,
- þar hefi ég búið lampa mínum smurða.
- 18 Óvini hans vil ég íklæða skömm,
- en á honum skal kóróna hans ljóma."
133 Helgigönguljóð. Eftir Davíð.
- Sjá, hversu fagurt og yndislegt það er,
- þegar bræður búa saman,
- 2 eins og hin ilmgóða olía á höfðinu,
- er rennur niður í skeggið, skegg Arons,
- er fellur niður á kyrtilfald hans,
- 3 eins og dögg af Hermonfjalli,
- er fellur niður á Síonfjöll.
- Því að þar hefir Drottinn boðið út blessun,
- lífi að eilífu.
134 Helgigönguljóð.
- Já, lofið Drottin,
- allir þjónar Drottins,
- þér er standið í húsi Drottins um nætur.
- 2 Fórnið höndum til helgidómsins
- og lofið Drottin.
- 3 Drottinn blessi þig frá Síon,
- hann sem er skapari himins og jarðar.
- Halelúja.
- Lofið nafn Drottins,
- lofið hann, þér þjónar Drottins,
- 2 er standið í húsi Drottins,
- í forgörðum húss Guðs vors.
- 3 Lofið Drottin, því að Drottinn er góður,
- leikið fyrir nafni hans, því að það er yndislegt.
- 4 Því að Drottinn hefir útvalið sér Jakob,
- gert Ísrael að eign sinni.
- 5 Já, ég veit, að Drottinn er mikill
- og að Drottinn vor er öllum guðum æðri.
- 6 Allt, sem Drottni þóknast, það gjörir hann,
- á himni og jörðu,
- í hafinu og öllum djúpunum.
- 7 Hann lætur skýin uppstíga frá endimörkum jarðar,
- gjörir eldingarnar til að búa rás regninu,
- hleypir vindinum út úr forðabúrum hans.
- 8 Hann laust frumburði Egyptalands,
- bæði menn og skepnur,
- 9 sendi tákn og undur yfir Egyptaland,
- gegn Faraó og öllum þjónum hans.
- 10 Hann laust margar þjóðir
- og deyddi volduga konunga:
- 11 Síhon, Amorítakonung,
- og Óg, konung í Basan,
- og öll konungsríki í Kanaan,
- 12 og gaf lönd þeirra að erfð,
- að erfð Ísrael, lýð sínum.
- 13 Drottinn, nafn þitt varir að eilífu,
- minning þín, Drottinn, frá kyni til kyns,
- 14 því að Drottinn réttir hlut þjóðar sinnar
- og aumkast yfir þjóna sína.
- 15 Skurðgoð þjóðanna eru silfur og gull,
- handaverk manna.
- 16 Þau hafa munn, en tala ekki,
- augu, en sjá ekki,
- 17 þau hafa eyru, en heyra ekki,
- og eigi er heldur neinn andardráttur í munni þeirra.
- 18 Eins og þau eru, verða smiðir þeirra,
- allir þeir, er á þau treysta.
- 19 Ísraels ætt, lofið Drottin,
- Arons ætt, lofið Drottin!
- 20 Leví ætt, lofið Drottin,
- þér sem óttist Drottin, lofið hann!
- 21 Lofaður sé Drottinn frá Síon,
- hann sem býr í Jerúsalem!
- Halelúja.
- Þakkið Drottni, því að hann er góður,
- því að miskunn hans varir að eilífu.
- 2 Þakkið Guði guðanna,
- því að miskunn hans varir að eilífu,
- 3 þakkið Drottni drottnanna,
- því að miskunn hans varir að eilífu,
- 4 honum, sem einn gjörir mikil dásemdarverk,
- því að miskunn hans varir að eilífu,
- 5 honum, sem skapaði himininn með speki,
- því að miskunn hans varir að eilífu,
- 6 honum, sem breiddi jörðina út á vötnunum,
- því að miskunn hans varir að eilífu,
- 7 honum, sem skapaði stóru ljósin,
- því að miskunn hans varir að eilífu,
- 8 sólina til þess að ráða deginum,
- því að miskunn hans varir að eilífu,
- 9 tunglið og stjörnurnar til þess að ráða nóttunni,
- því að miskunn hans varir að eilífu,
- 10 honum, sem laust Egypta með deyðing frumburðanna,
- því að miskunn hans varir að eilífu,
- 11 og leiddi Ísrael burt frá þeim,
- því að miskunn hans varir að eilífu,
- 12 með sterkri hendi og útréttum armlegg,
- því að miskunn hans varir að eilífu,
- 13 honum, sem skipti Rauðahafinu sundur,
- því að miskunn hans varir að eilífu,
- 14 og lét Ísrael ganga gegnum það,
- því að miskunn hans varir að eilífu,
- 15 og keyrði Faraó og her hans út í Rauðahafið,
- því að miskunn hans varir að eilífu,
- 16 honum, sem leiddi lýð sinn gegnum eyðimörkina,
- því að miskunn hans varir að eilífu,
- 17 honum, sem laust mikla konunga,
- því að miskunn hans varir að eilífu,
- 18 og deyddi volduga konunga,
- því að miskunn hans varir að eilífu,
- 19 Síhon Amorítakonung,
- því að miskunn hans varir að eilífu,
- 20 og Óg konung í Basan,
- því að miskunn hans varir að eilífu,
- 21 og gaf land þeirra að erfð,
- því að miskunn hans varir að eilífu,
- 22 að erfð Ísrael þjóni sínum,
- því að miskunn hans varir að eilífu,
- 23 honum, sem minntist vor í læging vorri,
- því að miskunn hans varir að eilífu,
- 24 og frelsaði oss frá fjandmönnum vorum,
- því að miskunn hans varir að eilífu,
- 25 sem gefur fæðu öllu holdi,
- því að miskunn hans varir að eilífu.
- 26 Þakkið Guði himnanna,
- því að miskunn hans varir að eilífu.
- Við Babýlons fljót, þar sátum vér og grétum,
- er vér minntumst Síonar.
- 2 Á pílviðina þar
- hengdum vér upp gígjur vorar.
- 3 Því að herleiðendur vorir heimtuðu
- söngljóð af oss
- og kúgarar vorir kæti:
- "Syngið oss Síonarkvæði!"
- 4 Hvernig ættum vér að syngja Drottins ljóð
- í öðru landi?
- 5 Ef ég gleymi þér, Jerúsalem,
- þá visni mín hægri hönd.
- 6 Tunga mín loði mér við góm,
- ef ég man eigi til þín,
- ef Jerúsalem er eigi allra besta yndið mitt.
- 7 Mun þú Edóms niðjum, Drottinn,
- óheilladag Jerúsalem,
- þegar þeir æptu: "Rífið, rífið
- allt niður til grunna!"
- 8 Babýlonsdóttir, þú sem tortímir!
- Heill þeim, er geldur þér
- fyrir það sem þú hefir gjört oss!
- 9 Heill þeim er þrífur ungbörn þín
- og slær þeim niður við stein.
138 Eftir Davíð.
- Ég vil lofa þig af öllu hjarta,
- lofsyngja þér frammi fyrir guðunum.
- 2 Ég vil falla fram fyrir þínu heilaga musteri
- og lofa nafn þitt sakir miskunnar þinnar og trúfesti,
- því að þú hefir gjört nafn þitt og orð þitt meira öllu öðru.
- 3 Þegar ég hrópaði, bænheyrðir þú mig,
- þú veittir mér hugmóð, er ég fann kraft hjá mér.
- 4 Allir konungar á jörðu skulu lofa þig, Drottinn,
- er þeir heyra orðin af munni þínum.
- 5 Þeir skulu syngja um vegu Drottins,
- því að mikil er dýrð Drottins.
- 6 Því að Drottinn er hár og sér þó hina lítilmótlegu
- og þekkir hinn drambláta í fjarska.
- 7 Þótt ég sé staddur í þrengingu,
- lætur þú mig lífi halda,
- þú réttir út hönd þína gegn reiði óvina minna,
- og hægri hönd þín hjálpar mér.
- 8 Drottinn mun koma öllu vel til vegar fyrir mig,
- Drottinn, miskunn þín varir að eilífu.
- Yfirgef eigi verk handa þinna.
139 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
- Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig.
- 2 Hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það,
- þú skynjar hugrenningar mínar álengdar.
- 3 Hvort sem ég geng eða ligg, þá athugar þú það,
- og alla vegu mína gjörþekkir þú.
- 4 Því að eigi er það orð á tungu minni,
- að þú, Drottinn, þekkir það eigi til fulls.
- 5 Þú umlykur mig á bak og brjóst,
- og hönd þína hefir þú lagt á mig.
- 6 Þekking þín er undursamlegri en svo, að ég fái skilið,
- of háleit, ég er henni eigi vaxinn.
- 7 Hvert get ég farið frá anda þínum
- og hvert flúið frá augliti þínu?
- 8 Þótt ég stigi upp í himininn, þá ertu þar,
- þótt ég gjörði undirheima að hvílu minni, sjá, þú ert þar.
- 9 Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans
- og settist við hið ysta haf,
- 10 einnig þar mundi hönd þín leiða mig
- og hægri hönd þín halda mér.
- 11 Og þótt ég segði: "Myrkrið hylji mig
- og ljósið í kringum mig verði nótt,"
- 12 þá myndi þó myrkrið eigi verða þér of myrkt
- og nóttin lýsa eins og dagur,
- myrkur og ljós eru jöfn fyrir þér.
- 13 Því að þú hefir myndað nýru mín,
- ofið mig í móðurlífi.
- 14 Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður,
- undursamleg eru verk þín,
- það veit ég næsta vel.
- 15 Beinin í mér voru þér eigi hulin,
- þegar ég var gjörður í leyni,
- myndaður í djúpum jarðar.
- 16 Augu þín sáu mig, er ég enn var ómyndað efni,
- ævidagar voru ákveðnir
- og allir skráðir í bók þína,
- áður en nokkur þeirra var til orðinn.
- 17 En hversu torskildar eru mér hugsanir þínar, ó Guð,
- hversu stórkostlegar eru þær allar samanlagðar.
- 18 Ef ég vildi telja þær, væru þær fleiri en sandkornin,
- ég mundi vakna og vera enn með hugann hjá þér.
- 19 Ó að þú, Guð, vildir fella níðingana.
- Morðingjar! Víkið frá mér.
- 20 Þeir þrjóskast gegn þér með svikum
- og leggja nafn þitt við hégóma.
- 21 Ætti ég eigi, Drottinn, að hata þá, er hata þig,
- og hafa viðbjóð á þeim, er rísa gegn þér?
- 22 Ég hata þá fullu hatri,
- þeir eru orðnir óvinir mínir.
- 23 Prófa mig, Guð, og þekktu hjarta mitt,
- rannsaka mig og þekktu hugsanir mínar,
- 24 og sjá þú, hvort ég geng á glötunarvegi,
- og leið mig hinn eilífa veg.
140 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
- 2 Frelsa mig, Drottinn, frá illmennum,
- vernda mig fyrir ofríkismönnum,
- 3 þeim er hyggja á illt í hjarta sínu
- og vekja ófrið á degi hverjum.
- 4 Þeir gjöra tungur sínar hvassar sem höggormar,
- nöðrueitur er undir vörum þeirra. [Sela]
- 5 Varðveit mig, Drottinn, fyrir hendi óguðlegra,
- vernda mig fyrir ofríkismönnum,
- er hyggja á að bregða fæti fyrir mig.
- 6 Ofstopamenn hafa lagt gildrur í leyni fyrir mig
- og þanið út snörur eins og net,
- hjá vegarbrúninni hafa þeir lagt möskva fyrir mig. [Sela]
- 7 Ég sagði við Drottin: Þú ert Guð minn,
- ljá eyra, Drottinn, grátbeiðni minni.
- 8 Drottinn Guð, mín máttuga hjálp,
- þú hlífir höfði mínu á orustudeginum.
- 9 Uppfyll eigi, Drottinn, óskir hins óguðlega,
- lát vélar hans eigi heppnast. [Sela]
- 10 Þeir skulu eigi hefja höfuðið umhverfis mig,
- ranglæti vara þeirra skal hylja sjálfa þá.
- 11 Lát rigna á þá eldsglóðum,
- hrind þeim í gryfjur, svo að þeir fái eigi upp staðið.
- 12 Illmáll maður skal eigi fá staðist í landinu,
- ofríkismanninn skal ógæfan elta með sífelldum höggum.
- 13 Ég veit, að Drottinn flytur mál hrjáðra,
- rekur réttar snauðra.
- 14 Vissulega skulu hinir réttlátu lofa nafn þitt,
- hinir hreinskilnu búa fyrir augliti þínu.
141 Davíðssálmur.
- Drottinn, ég ákalla þig, skunda þú til mín,
- ljá eyra raust minni, er ég ákalla þig.
- 2 Bæn mín sé fram borin sem reykelsisfórn fyrir auglit þitt,
- upplyfting handa minna sem kvöldfórn.
- 3 Set þú, Drottinn, vörð fyrir munn minn,
- gæslu fyrir dyr vara minna.
- 4 Lát eigi hjarta mitt hneigjast að neinu illu,
- að því að fremja óguðleg verk
- með illvirkjum,
- og lát mig eigi eta krásir þeirra.
- 5 Þótt réttlátur maður slái mig
- og trúaður hirti mig,
- mun ég ekki þiggja sæmd af illum mönnum.
- Bæn mín stendur gegn illsku þeirra.
- 6 Þegar höfðingjum þeirra verður hrundið niður af kletti,
- munu menn skilja, að orð mín voru sönn.
- 7 Eins og menn höggva við og kljúfa á jörðu,
- svo skal beinum þeirra tvístrað við gin Heljar.
- 8 Til þín, Drottinn, mæna augu mín,
- hjá þér leita ég hælis,
- sel þú eigi fram líf mitt.
- 9 Varðveit mig fyrir gildru þeirra, er sitja um mig,
- og fyrir snörum illvirkjanna.
- 10 Hinir óguðlegu falli í sitt eigið net,
- en ég sleppi heill á húfi.
142 Maskíl eftir Davíð, er hann var í hellinum. Bæn.
- 2 Ég hrópa hátt til Drottins,
- hástöfum grátbæni ég Drottin.
- 3 Ég úthelli kveini mínu fyrir honum,
- tjái honum neyð mína.
- 4 Þegar andi minn örmagnast í mér,
- þekkir þú götu mína.
- Á leið þeirri er ég geng
- hafa þeir lagt snörur fyrir mig.
- 5 Ég lít til hægri handar og skyggnist um,
- en enginn kannast við mig.
- Mér er varnað sérhvers hælis,
- enginn spyr eftir mér.
- 6 Ég hrópa til þín, Drottinn,
- ég segi: Þú ert hæli mitt,
- hlutdeild mín á landi lifenda.
- 7 Veit athygli kveini mínu,
- því að ég er mjög þjakaður,
- bjarga mér frá ofsækjendum mínum,
- því að þeir eru mér yfirsterkari.
- 8 Leið mig út úr dýflissunni,
- að ég megi lofa nafn þitt,
- hinir réttlátu skipast í kringum mig,
- þegar þú gjörir vel til mín.
143 Davíðssálmur.
- Drottinn, heyr þú bæn mína,
- ljá eyra grátbeiðni minni í trúfesti þinni,
- bænheyr mig í réttlæti þínu.
- 2 Gakk eigi í dóm við þjón þinn,
- því að enginn er réttlátur fyrir augliti þínu.
- 3 Óvinurinn eltir sál mína,
- slær líf mitt til jarðar,
- lætur mig búa í myrkri
- eins og þá sem löngu eru dánir.
- 4 Andi minn örmagnast í mér,
- hjarta mitt er agndofa hið innra í mér.
- 5 Ég minnist fornra daga,
- íhuga allar gjörðir þínar,
- ígrunda verk handa þinna.
- 6 Ég breiði út hendurnar í móti þér,
- sál mín er sem örþrota land fyrir þér. [Sela]
- 7 Flýt þér að bænheyra mig, Drottinn,
- andi minn örmagnast,
- byrg eigi auglit þitt fyrir mér,
- svo að ég verði ekki líkur þeim, er gengnir eru til grafar.
- 8 Lát þú mig heyra miskunn þína að morgni dags,
- því að þér treysti ég.
- Gjör mér kunnan þann veg, er ég á að ganga,
- því að til þín hef ég sál mína.
- 9 Frelsa mig frá óvinum mínum, Drottinn,
- ég flý á náðir þínar.
- 10 Kenn mér að gjöra vilja þinn,
- því að þú ert minn Guð.
- Þinn góði andi leiði mig
- um slétta braut.
- 11 Veit mér að lifa, Drottinn, sakir nafns þíns,
- leið mig úr nauðum sakir réttlætis þíns.
- 12 Lát þú óvini mína hverfa sakir trúfesti þinnar,
- ryð þeim öllum úr vegi, er að mér þrengja,
- því að ég er þjónn þinn.
144 Eftir Davíð.
- Lofaður sé Drottinn, bjarg mitt,
- sem æfir hendur mínar til bardaga,
- fingur mína til orustu.
- 2 Miskunn mín og vígi,
- háborg mín og hjálpari,
- skjöldur minn og athvarf,
- hann leggur þjóðir undir mig.
- 3 Drottinn, hvað er maðurinn þess, að þú þekkir hann,
- mannsins barn, að þú gefir því gaum.
- 4 Maðurinn er sem vindblær,
- dagar hans sem hverfandi skuggi.
- 5 Drottinn, sveig þú himin þinn og stíg niður,
- snertu fjöllin, svo að úr þeim rjúki.
- 6 Lát eldinguna leiftra og tvístra óvinum,
- skjót örvum þínum og skelf þá.
- 7 Rétt út hönd þína frá hæðum,
- hríf mig burt og bjarga mér
- úr hinum miklu vötnum,
- af hendi útlendinganna.
- 8 Munnur þeirra mælir tál,
- og hægri hönd þeirra er lyginnar hönd.
- 9 Guð, ég vil syngja þér nýjan söng,
- ég vil leika fyrir þér á tístrengjaða hörpu.
- 10 Þú veitir konungunum sigur,
- hrífur Davíð þjón þinn undan hinu illa sverði.
- 11 Hríf mig burt og bjarga mér
- af hendi útlendinganna.
- Munnur þeirra mælir tál,
- og hægri hönd þeirra er lyginnar hönd.
- 12 Synir vorir eru sem þroskaðir teinungar í æsku sinni,
- dætur vorar sem hornsúlur, úthöggnar í hallarstíl.
- 13 Hlöður vorar eru fullar og veita afurðir af hverri tegund,
- fénaður vor getur af sér þúsundir,
- verður tíþúsundfaldur á haglendum vorum,
- 14 uxar vorir klyfjaðir,
- ekkert skarð og engir hernumdir
- og ekkert óp á torgum vorum.
- 15 Sæl er sú þjóð, sem svo er ástatt fyrir,
- sæl er sú þjóð, sem á Drottin að Guði.
145 Davíðs-lofsöngur.
- Ég vil vegsama þig, ó Guð minn, þú konungur,
- og prísa nafn þitt um aldur og ævi.
- 2 Á hverjum degi vil ég prísa þig
- og lofa nafn þitt um aldur og ævi.
- 3 Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur,
- mikilleikur hans er órannsakanlegur.
- 4 Ein kynslóðin vegsamar verk þín fyrir annarri
- og kunngjörir máttarverk þín.
- 5 Þær segja frá tign og dýrð vegsemdar þinnar:
- "Ég vil syngja um dásemdir þínar."
- 6 Og um mátt ógnarverka þinna tala þær:
- "Ég vil segja frá stórvirkjum þínum."
- 7 Þær minna á þína miklu gæsku
- og fagna yfir réttlæti þínu.
- 8 Náðugur og miskunnsamur er Drottinn,
- þolinmóður og mjög gæskuríkur.
- 9 Drottinn er öllum góður,
- og miskunn hans er yfir öllu, sem hann skapar.
- 10 Öll sköpun þín lofar þig, Drottinn,
- og dýrkendur þínir prísa þig.
- 11 Þeir tala um dýrð konungdóms þíns,
- segja frá veldi þínu.
- 12 Þeir kunngjöra mönnum veldi þitt,
- hina dýrlegu tign konungdóms þíns.
- 13 Konungdómur þinn er konungdómur um allar aldir
- og ríki þitt stendur frá kyni til kyns.
- Drottinn er trúfastur í öllum orðum sínum
- og miskunnsamur í öllum verkum sínum.
- 14 Drottinn styður alla þá, er ætla að hníga,
- og reisir upp alla niðurbeygða.
- 15 Allra augu vona á þig,
- og þú gefur þeim fæðu þeirra á réttum tíma.
- 16 Þú lýkur upp hendi þinni
- og seður allt sem lifir með blessun.
- 17 Drottinn er réttlátur á öllum sínum vegum
- og miskunnsamur í öllum sínum verkum.
- 18 Drottinn er nálægur öllum sem ákalla hann,
- öllum sem ákalla hann í einlægni.
- 19 Hann uppfyllir ósk þeirra er óttast hann,
- og hróp þeirra heyrir hann og hjálpar þeim.
- 20 Drottinn varðveitir alla þá er elska hann,
- en útrýmir öllum níðingum.
- 21 Munnur minn skal mæla orðstír Drottins,
- allt hold vegsami hans heilaga nafn um aldur og ævi.
- Halelúja.
- Lofa þú Drottin, sála mín!
- 2 Ég vil lofa Drottin meðan lifi,
- lofsyngja Guði mínum, meðan ég er til.
- 3 Treystið eigi tignarmennum,
- mönnum sem enga hjálp geta veitt.
- 4 Andi þeirra líður burt, þeir verða aftur að jörðu,
- á þeim degi verða áform þeirra að engu.
- 5 Sæll er sá, er á Jakobs Guð sér til hjálpar,
- sá er setur von sína á Drottin, Guð sinn,
- 6 hann sem skapað hefir himin og jörð,
- hafið og allt sem í því er,
- hann sem varðveitir trúfesti sína að eilífu,
- 7 sem rekur réttar kúgaðra
- og veitir brauð hungruðum.
- Drottinn leysir hina bundnu,
- 8 Drottinn opnar augu blindra,
- Drottinn reisir upp niðurbeygða,
- Drottinn elskar réttláta.
- 9 Drottinn varðveitir útlendingana,
- hann annast ekkjur og föðurlausa,
- en óguðlega lætur hann fara villa vegar.
- 10 Drottinn er konungur að eilífu,
- hann er Guð þinn, Síon, frá kyni til kyns.
- Halelúja.
- Halelúja.
- Það er gott að leika fyrir Guði vorum,
- því að hann er yndislegur, honum hæfir lofsöngur.
- 2 Drottinn endurreisir Jerúsalem,
- safnar saman hinum tvístruðu af Ísrael.
- 3 Hann læknar þá, er hafa sundurkramið hjarta,
- og bindur um benjar þeirra.
- 4 Hann ákveður tölu stjarnanna,
- kallar þær allar með nafni.
- 5 Mikill er Drottinn vor og ríkur að veldi,
- speki hans er ómælanleg.
- 6 Drottinn annast hrjáða,
- en óguðlega lægir hann að jörðu.
- 7 Syngið Drottni með þakklæti,
- leikið á gígju fyrir Guði vorum.
- 8 Hann hylur himininn skýjum,
- býr regn handa jörðinni,
- lætur gras spretta á fjöllunum.
- 9 Hann gefur skepnunum fóður þeirra,
- hrafnsungunum, þegar þeir kalla.
- 10 Hann hefir eigi mætur á styrkleika hestsins,
- eigi þóknun á fótleggjum mannsins.
- 11 Drottinn hefir þóknun á þeim er óttast hann,
- þeim er bíða miskunnar hans.
- 12 Vegsama Drottin, Jerúsalem,
- lofa þú Guð þinn, Síon,
- 13 því að hann hefir gjört sterka slagbrandana fyrir hliðum þínum,
- blessað börn þín, sem í þér eru.
- 14 Hann gefur landi þínu frið,
- seður þig á hinu kjarnbesta hveiti.
- 15 Hann sendir orð sitt til jarðar,
- boð hans hleypur með hraða.
- 16 Hann gefur snjó eins og ull,
- stráir út hrími sem ösku.
- 17 Hann sendir hagl sitt sem brauðmola,
- hver fær staðist frost hans?
- 18 Hann sendir út orð sitt og lætur ísinn þiðna,
- lætur vind sinn blása, og vötnin renna.
- 19 Hann kunngjörði Jakob orð sitt,
- Ísrael lög sín og ákvæði.
- 20 Svo hefir hann eigi gjört við neina þjóð,
- þeim kennir hann ekki ákvæði sín.
- Halelúja.
- Halelúja.
- Lofið Drottin af himnum,
- lofið hann á hæðum.
- 2 Lofið hann, allir englar hans,
- lofið hann, allir herskarar hans.
- 3 Lofið hann, sól og tungl,
- lofið hann, allar lýsandi stjörnur.
- 4 Lofið hann, himnar himnanna
- og vötnin, sem eru yfir himninum.
- 5 Þau skulu lofa nafn Drottins,
- því að hans boði voru þau sköpuð.
- 6 Og hann fékk þeim stað um aldur og ævi,
- hann gaf þeim lög, sem þau mega eigi brjóta.
- 7 Lofið Drottin af jörðu,
- þér sjóskrímsl og allir hafstraumar,
- 8 eldur og hagl, snjór og reykur,
- stormbylurinn, sem framkvæmir orð hans,
- 9 fjöllin og allar hæðir,
- ávaxtartrén og öll sedrustrén,
- 10 villidýrin og allur fénaður,
- skriðkvikindin og fleygir fuglar,
- 11 konungar jarðarinnar og allar þjóðir,
- höfðingjar og allir dómendur jarðar,
- 12 bæði yngismenn og yngismeyjar,
- öldungar og ungir sveinar!
- 13 Þau skulu lofa nafn Drottins,
- því að hans nafn eitt er hátt upp hafið,
- tign hans er yfir jörð og himni.
- 14 Hann lyftir upp horni fyrir lýð sinn,
- lofsöngur hljómi hjá öllum dýrkendum hans,
- hjá sonum Ísraels, þjóðinni, sem er nálæg honum.
- Halelúja.
- Halelúja.
- Syngið Drottni nýjan söng,
- lofsöngur hans hljómi í söfnuði trúaðra.
- 2 Ísrael gleðjist yfir skapara sínum,
- synir Síonar fagni yfir konungi sínum.
- 3 Þeir skulu lofa nafn hans með gleðidansi,
- leika fyrir honum á bumbur og gígjur.
- 4 Því að Drottinn hefir þóknun á lýð sínum,
- hann skrýðir hrjáða með sigri.
- 5 Hinir trúuðu skulu gleðjast með sæmd,
- syngja fagnandi í hvílum sínum
- 6 með lofgjörð Guðs á tungu
- og tvíeggjað sverð í höndum
- 7 til þess að framkvæma hefnd á þjóðunum,
- hirtingu á lýðunum,
- 8 til þess að binda konunga þeirra með fjötrum,
- þjóðhöfðingja þeirra með járnhlekkjum,
- 9 til þess að fullnægja á þeim skráðum dómi.
- Það er til vegsemdar öllum dýrkendum hans.
- Halelúja.
- Halelúja.
- Lofið Guð í helgidómi hans,
- lofið hann í voldugri festingu hans!
- 2 Lofið hann fyrir máttarverk hans,
- lofið hann eftir mikilleik hátignar hans!
- 3 Lofið hann með lúðurhljómi,
- lofið hann með hörpu og gígju!
- 4 Lofið hann með bumbum og gleðidansi,
- lofið hann með strengleik og hjarðpípum!
- 5 Lofið hann með hljómandi skálabumbum,
- lofið hann með hvellum skálabumbum!
- 6 Allt sem andardrátt hefir lofi Drottin!
- Halelúja!